„Þetta er búið að ganga mjög vel. Við hinsvegar tókum okkur hlé yfir helgina og erum að setjast niður aftur núna,“ sagði Dagur B. Eggertsson þegar hann mætti í Fjölbrautarskólann í Breiðholti í morgun til þess að halda áfram meirihlutaviðræðum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, var fyrst á staðinn. „Þetta leggst vel í okkur, það er fallegur dagur,“ sagði hún. Aðspurð sagðist hún ekki geta sagt til um hvenær mætti búast við að viðræðum lyki. „Þetta gengur hratt og örugglega og í dagsbirtu. Hér er ekkert í reykfylltum herbergjum eða myrkri, svo það gengur bara vel.“
„Við erum búin að vera að fara í gegn um málin og málaflokkana. Við erum komin með ákveðnar línur í þeim flokkum sem við erum búin að fara í gegn um,“ sagði Þórdís en að það væri trúnaðarmál hvaða málaflokka búið væri að ræða. Hún sagði að ekkert stæði út af ennþá.
Hvað borgarstjórastólinn varðar vildi hún taka það skýrt fram að allt tal um að Viðreisn vildi ráða inn borgarstjóra væri slúður. „Við fórum ekki af stað með það, Viðreisn í Reykjavík. Það gerðu hinsvegar margir aðrir í Viðreisn í öðrum sveitarfélögum og ég skil það, það eru minni sveitarfélög, en það gerðum við ekki.“
„Við eigum eftir að fara í gegn um öll hlutverk og það eru mörg hlutverk sem skipta máli, ekki bara borgarstjórastóllinn. Við komum til með að gera það seinna í ferlinu.“
Dagur tók undir það að þau væru ekki búin að setja sér nein tímamörk. „Við ætlum bara að klára þetta í góðum tíma fyrir 19. júní, þá er fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar. Aðrar tímasetningar höfum við ekki gefið út.“
Verður þú áfram borgarstjóri?
„Við höfum ekki farið yfir verkaskiptingar. Þetta skýrist þegar fram í sækir.“