Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur samþykkt tillögur uppstillingarnefndar um framboðslista fyrir þingkosningar í haust. Þar eru þær Helga Vala Helgadóttir alþingismaður og Kristrún Mjöll Flosadóttir hagfræðingur í efsta sæti kjördæmanna tveggja, Helga norðan megin og Kristrún sunnan.
Allsherjarfundur fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík fjallaði um tillögurnar og samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á fjölmennum fjarfundi. 280 tóku þátt í kosningu, 79% staðfestu listann og 17,5% höfnuðu listanum og 3,5% skiluðu auðu.
Fólkið í næstu sætum kemur sjálfsagt meira á óvart en í þeim efstu, Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður er í 2. sæti í Reykjavík norður, en Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður í Reykjavík suður. Jóhann Páll má heita nýgræðingur í flokknum, en hann hefur verið starfsmaður þingflokksins að undanförnu og mjög handgenginn flokksforystunni. Rósa Björk er nýgengin til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar, en hún var kjörin á þing undir merkjum vinstri grænna í síðustu kosningum. Vera Rósu Bjarkar á listanum kemur einkum á óvart þar sem hún hafði áður gefið til kynna að sér hugnaðist betur að leitast eftir efsta sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, en hún hefur greinilega ákveðið að gera sér 2. sætið í Reykjavík að góðu, þótt það sé ekki „öruggt“ þingsæti, að því leyti sem nokkurt þingsæti getur talist það. Samfylkingin fékk aðeins einn þingmann í hvoru Reykjavíkurkjördæmi síðast.
Í þriðju sætum sitja svo Dagbjört Hákonardóttir, lögfræðingur í ráðhúsinu, í nyrðra, en Viðar Eggertsson, leikari og stjórnarmaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, í syðra. Dagbjört var virk í ungliðahreyfingunni á árum áður, en tenging Viðars við eldri borgara þykir vafalaust eftirsóknarverð.
Á ýmsu hefur gengið við skipan listans, en ný aðferð var notuð til þess að finna fólk á hann, þar á meðal óbindandi skoðanakönnun, sem sumir frambjóðendur eru sagðir hafa smalað í en aðrir ekki. Þannig hafi niðurstöðurnar verið mjög mishagfelldar frambjóðendum, en uppstillingarnefndin studdist að verulegu leyti við þær um röð í efstu sæti.
Það varð meðal annars til þess að Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður hætti við framboð frekar en að þiggja sæti neðarlega á listanum og eins gekk Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir varaþingmaður úr flokknum eftir að hafa fengið kaldar kveðjur frá nefndinni.
Þungt hljóð er í ýmsum flokksmönnum vegna þessa, einkum þeim sem eiga rætur í Alþýðuflokknum. Eru þessar hrókeringar að miklu leyti raktar til Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar, sem sagður er vilja breyta ásýnd og áherslum flokksins í aðdraganda kosninga.
Framboðslisti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður
Framboðslisti Samfylkingarinnar Reykjavík suður