Helga Vala og Kristrún efstar hjá Samfylkingu

Helga Vala Helgadóttir og Kristrún Mjöll Frostadóttir leiða lista Samfylkingarinnar …
Helga Vala Helgadóttir og Kristrún Mjöll Frostadóttir leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Samsett mynd

Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur samþykkt tillögur uppstillingarnefndar um framboðslista fyrir þingkosningar í haust. Þar eru þær Helga Vala Helgadóttir alþingismaður og Kristrún Mjöll Flosadóttir hagfræðingur í efsta sæti kjördæmanna tveggja, Helga norðan megin og Kristrún sunnan.

Allsherjarfundur fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík fjallaði um tillögurnar og samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á fjölmennum fjarfundi. 280 tóku þátt í kosningu, 79% staðfestu listann og 17,5% höfnuðu listanum og 3,5% skiluðu auðu.

Fólkið í næstu sætum kemur sjálfsagt meira á óvart en í þeim efstu, Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður er í 2. sæti í Reykjavík norður, en Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður í Reykjavík suður. Jóhann Páll má heita nýgræðingur í flokknum, en hann hefur verið starfsmaður þingflokksins að undanförnu og mjög handgenginn flokksforystunni. Rósa Björk er nýgengin til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar, en hún var kjörin á þing undir merkjum vinstri grænna í síðustu kosningum. Vera Rósu Bjarkar á listanum kemur einkum á óvart þar sem hún hafði áður gefið til kynna að sér hugnaðist betur að leitast eftir efsta sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, en hún hefur greinilega ákveðið að gera sér 2. sætið í Reykjavík að góðu, þótt það sé ekki „öruggt“ þingsæti, að því leyti sem nokkurt þingsæti getur talist það. Samfylkingin fékk aðeins einn þingmann í hvoru Reykjavíkurkjördæmi síðast.

Í þriðju sætum sitja svo Dagbjört Hákonardóttir, lögfræðingur í ráðhúsinu, í nyrðra, en Viðar Eggertsson, leikari og stjórnarmaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, í syðra. Dagbjört var virk í ungliðahreyfingunni á árum áður, en tenging Viðars við eldri borgara þykir vafalaust eftirsóknarverð.

Erfið fæðing

Á ýmsu hefur gengið við skipan listans, en ný aðferð var notuð til þess að finna fólk á hann, þar á meðal óbindandi skoðanakönnun, sem sumir frambjóðendur eru sagðir hafa smalað í en aðrir ekki. Þannig hafi niðurstöðurnar verið mjög mishagfelldar frambjóðendum, en uppstillingarnefndin studdist að verulegu leyti við þær um röð í efstu sæti.

Það varð meðal annars til þess að Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður hætti við framboð frekar en að þiggja sæti neðarlega á listanum og eins gekk Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir varaþingmaður úr flokknum eftir að hafa fengið kaldar kveðjur frá nefndinni.

Þungt hljóð er í ýmsum flokksmönnum vegna þessa, einkum þeim sem eiga rætur í Alþýðuflokknum. Eru þessar hrókeringar að miklu leyti raktar til Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar, sem sagður er vilja breyta ásýnd og áherslum flokksins í aðdraganda kosninga.

Framboðslisti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður

  1. Helga Vala Helgadóttir alþingismaður
  2. Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður
  3. Dagbjört Hákonardóttir lögfræðingur
  4. Magnús Árni Skjöld dósent
  5. Ragna Sigurðardóttir, forseti UJ og læknanemi
  6. Finnur Birgisson arkitekt
  7. Ásta Guðrún Helgadóttir ráðgjafi
  8. Ásgeir Beinteinsson, fyrrv. skólastjóri
  9. Magnea Marinósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur
  10. Sigfús Ómar Höskuldsson, rekstrarfræðingur og þjálfari
  11. Sonja Björg Jóhannsdóttir, deildarstjóri í leikskóla
  12. Hallgrímur Helgason rithöfundur
  13. Alexandra Ýr van Erven, ritari Samfylkingarinnar
  14. Hlal Jarrah veitingamaður
  15. Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar og kaospilot
  16. Rúnar Geirmundsson framkvæmdastjóri
  17. Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir laganemi
  18. Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður
  19. Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur og formaður 60+
  20. Vilhjálmur Þorsteinsson hugbúnaðarhönnuður
  21. Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar
  22. Jóhanna Sigurðardóttir, fv. forsætisráðherra

Framboðslisti Samfylkingarinnar Reykjavík suður

  1. Kristrún Mjöll Frostadóttir hagfræðingur
  2. Rósa Björk Brynjólfsdóttir alþingismaður
  3. Viðar Eggertsson, leikstjóri og verðandi eldri borgari
  4. Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi
  5. Birgir Þórarinsson tónlistarmaður
  6. Aldís Mjöll Geirsdóttir lögfræðingur
  7. Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur
  8. Ellen Calmon, borgarfulltrúi og formaður SffR
  9. Viktor Stefánsson stjórnmálahagfræðingur
  10. Elín Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur
  11. Hlynur Már Vilhjálmsson, starfsmaður á frístundaheimili
  12. Margret Adamsdóttir leikskólakennari
  13. Axel Jón Ellenarson, grafískur hönnuður
  14. Ingibjörg S. Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur
  15. Jakob Magnússon veitingamaður
  16. Ingibjörg Grímsdóttir þjónustufulltrúi
  17. Jónas Hreinsson rafiðnaðarmaður
  18. Sólveig Jónasdóttir, kynningarfulltrúi Sameykis
  19. Hildur Kjartansdóttir myndlistarmaður
  20. Ellert B. Schram, fv. alþingismaður
  21. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fv. alþingismaður
  22. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert