Flókið að mynda ríkisstjórn eftir kosningar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands og formaður Vinstri grænna, segir það geta reynst flókið verkefni að mynda ríkisstjórn eftir næstu kosningar.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könn­unar á fylgi flokk­anna fyr­ir alþing­is­kosn­ing­ar í haust, sem unn­in er í sam­starfi mbl.is, Morg­un­blaðsins og MMR, myndi núverandi ríkisstjórn falla ef gengið væri til kosninga í dag. Má fall stjórnarmeirihlutans þá helst rekja til þriðjungs fylgistaps Vinstri grænna sem mældust með 10,7% fylgi, en það skilar þeim einungis sjö þingsætum.

Í samtali við mbl.is segist Katrín ekki hafa miklar áhyggjur af þessum niðurstöðum en línurnar muni skýrast betur þegar nær dregur kosningum.

„Reynslan kennir mér nú að vera ekkert of mikið að líta til skoðanakannana í gegnum kjörtímabilið því þær eru svo mismunandi. Þannig ég myndi bara segja að svona heilt yfir höfum við bara verið að mælast ágætlega,“ segir forsætisráðherra.

Katrín kveðst hafa trú á því að kjósendur muni meta verk flokksins á kjörtímabilinu og að þeir muni hafa trú á þeirri framtíðarsýn sem Vinstri grænir munu tefla fram fyrir næstu kosningar.

Spurð hvort að fimm flokka vinstristjórn sé í kortunum segir Katrín ekki hægt að segja til um það núna. „Ég horfi á þetta þannig að auðvitað er bara tómt mál að vera að ræða einhverja ríkisstjórnarmyndanir fyrr en niðurstöður kosninga liggja fyrir. Við í VG munum láta málefnin ráða för í stjórnarmyndun eins og við höfum gert hingað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert