Flokksþingi Framsóknar hefur verið frestað í þriðja sinn. Fyrirhugað flokksþing var síðast tímasett daganna 28. til 29. ágúst.
Í pósti sem Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknar, sendi á flokksfélaga sína segir að landsstjórn flokksins hafi komið saman þann 15. ágúst og verið sammála um að ekki væri unnt að boða til flokksþings eins og staðan er nú í samfélaginu vegna heimsfaraldurs Covid-19.
Reglulegt flokksþing Framsóknar hefði átt að fara fram vorið 2020 og hefur ekki verið haldið síðan árið 2018.
Í lögum Framsóknar um flokkþing segir að Framsóknarflokkurinn heldur reglulegt flokksþing sem haustfundur miðstjórnar boðar til, eigi sjaldnar en annað hvert ár og skal það að jafnaði haldið fyrri hluta árs.
Jón Björn Hákonarson segir í samtali við mbl.is að flokksþing verði þannig ekki haldið fyrir alþingiskosningnar í haust þann 25. september.