Rebekka Líf Ingadóttir
Samkvæmt nýrri könnun MMR á afstöðu fólks til framboða í komandi alþingiskosningum eru horfur á að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, nái ekki inn á þing fyrir Suður- Reykjavík. Ef fram heldur sem horfir sleppur Tómas A. Tómasson inn í jöfnunarsæti í Norður- Reykjavík.
„Við höfum engar áhyggjur af þessu, við erum bara glöð,“ segir Inga, sem hefur verið alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður síðan 2017.
„Við erum nú bara ofboðslega glöð og jákvæð í Flokki fólksins, við bíðum bara eftir því sem verður talið upp úr kössunum og það get ég sagt þér að það verður ekkert af þessu.“
Inga segir gaman að fylgjast með könnunum, þessi gefi þeim þrjá menn á þing og að það sé ágætt. „Bjartsýni og bros bjarga deginum og við höldum bara áfram að vinna að okkar góðu málum.“