Tvær eru í framboði til embættis ritara Vinstri grænna, þær Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Sitjandi ritarinn Ingibjörg Þórðardóttir sækist ekki eftir endurkjöri.
Rafrænn landsfundur Vinstri grænna fer fram á morgun klukkan tíu en þá verður kosið í stjórn og flokksráð en mörg stjórnarframboð hafa þegar borist að því er fram kemur í tilkynningu frá flokknum.
Þar verða einnig lagðar fram kosningaáherslur fyrir Alþingiskosningar í september.
Rúnar Gíslason gjaldkeri flokksins sækist þá eftir endurkjöri og hafa engin mótframboð borist enn sem komið er að sögn Berglindar Häsler, samskipta- og viðburðastjóra VG.
Formaður flokksins Katrín Jakobsdóttir og varaformaður, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, gefa bæði kost á sér til endurkjörs og enn hafa ekki borist nein mótframboð.
Dagskrá fundarins, sem verður streymt á vefsvæðinu landsfundur.vg.is, er svohljóðandi:
10:00 Fundur settur
10:15 Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, flytur ávarp í opnu streymi.
12:30 Kosning til stjórnar. Niðurstöður verða kynntar jafnóðum.
15:30 Oddvitar kynna kosningaáherslur í opnu streymi.
Ræðu Katrínar verður streymt af vef mbl.is.