„Skrítnari en kosningaloforð Miðflokksins“

Þorgerður Katrín á landsfundinum fyrr í dag.
Þorgerður Katrín á landsfundinum fyrr í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagðist á landsþingi flokksins fyrr í dag óska eftir því að skýrsla um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi verði unnin upp á nýtt.

Hún sagði skýrsluna hafa verið „skrítnari en kosningarloforð Miðflokksins“ og að um skandal sé að ræða.

„Ég óska eindregið eftir því að skýrslan verði unnin upp á nýtt og þá dugar ekki fyrir ríkisstjórnina að skýla sér á bak við Persónuvernd svo hægt sé  að sitja áfram á upplýsingum fram yfir kosningar,” sagði Þorgerður Katrín og bætti við að þetta sé enn ein birtingarmynd þess að skipta þurfi um ríkisstjórn.

Hún sagði flokk Viðreisnar hafa áorkað miklu á kjörtímabilinu og verið samkvæman sjálfum sér. Hann hafi ekki verið á móti bara til að vera á móti. Flokkurinn hafi aukið aðgengi að geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu, lagt fram nýja skilgreiningu á nauðgun í hegningarlögum og óskað eftir skýrslu um „þá óskiljanlegu og ómannúðlegu ákvörðun ríkisstjórnarinnar um breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir leghálskrabbameini”.

Einnig nefndi hún að flokkurinn hafi lagt fram frumvörp um að tímabinda samninga og markaðsverða á makríl um dreifða eignaraðild, aukið gegnsæi og skráningu sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkaði.

Læst ofan í skrifborðsskúffu Svandísar

Þorgerður Katrín sagði að mál forsætisráðherra um auðlindaákvæði í stjórnarskránni hafa verið sorglegt klúður og skilaboð ríkisstjórnarinnar þau að ekki skuli hrófla við  útgerðinni.

Hún bætti við: „Hvar er hugsjón Sjálfstæðisflokksins um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu? Hún er læst ofan í skrifborðsskúffu Svandísar Svavarsdóttur.

Hvar er hugsjón VG um loftslagsmálin? Hún er læst inn í skúr hjá Sjálfstæðisflokknum. Hvar er fallega hugsjón VG um manneskjulegri innflytjendamál? Hún er í gíslingu hjá þingmönnum og ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Hvar er síðan Framsóknarflokkurinn sem vill nú kenna sig við miðjuna þegar ægivald jaðranna í ríkisstjórn hefur ráðið öllu.. Svona flokkur er ekki hugsjónaflokkur heldur valdaflokkur,” sagði hún og gagnrýndi einnig stöðuna í heilbrigðiskerfinu og þá biðlista sem þar ríkja.  

„Það er því ódýrt, á síðustu metrum fyrir kosningar, að kasta allri ábyrgð á heilbrigðisstarfsfólk, Landspítalann eða samráðherra á þeirri stöðu sem nú er upp í heilbrigðiskerfinu,” sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert