Sjálfstæðismenn leggja áherslu á allsherjar orkuskipti Íslendinga á næstu árum. „Þá blasa við hér á Íslandi þau tækifæri sem felast í hreinni, grænni, endurnýtanlegri orku, í vatnsafli, jarðvarma, vindi, sjávarföllum eða hvað sem það er,“ segir Teitur Björn Einarsson, sem er í 3. sæti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Hann bendir hins vegar á að þar geti togast á hagsmunir loftslags og landverndar, sem þurfi að greiða úr. Hann tekur til dæmis að á Vestfjörðum vanti orku til þess að geta hafið orkuskipti þar, bæði virkjanir og flutningskosti. Til þess séu þó kostir, en það strandi á fyrirhuguðum þjóðgarði á Vestfjörðum.
„Hver er þá valkosturinn? Eigum við að meina Vestfirðingum að fara í orkuskiptin og ná árangri út af þjóðgarði? Er það verkefnið?“ spyr Teitur. „Ég segi nei við því, við skulum gera hvoru tveggja. Förum í þjóðgarð og virkjum, vinnum með þetta saman. Það er bæði náttuvernd og orkuskipti og þau tækifæri sem því fylgja.“
Teitur Björn var gestur í málefnaþætti Dagmála í aðdraganda Alþingiskosninga, ásamt þeim Orra Páli Jóhannssyni, sem er í 2. sæti vinstrigrænna í Reykjavík suður og jafnframt aðstoðarmaður umhverfisráðherra, og Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem er í efsta sæti Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi og fyrrverandi umhverfisráðherra. Þar ræddu þau um umhverfis-, auðlinda- og atvinnumál í víðu samhengi. Dagmál eru streymisþættir Morgunblaðsins, opnir öllum áskrifendum.