Töluverð hreyfing er loks komin á fylgi framboða samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is. Samkvæmt niðurstöðunum bætir Viðreisn hraustlega við sig fylgi milli vikna og Framsókn sömuleiðis. Hins vegar dalar Sjálfstæðisflokkurinn merkjanlega og eins virðist fylgi Sósíalistaflokksins nokkuð vera að ganga til baka. Fylgisbreytingar annarra flokka eru óverulegar milli vikna.
Fylgisaukningu Viðreisnar má að langmestu leyti rekja til fylgisaukningar í tveimur kjördæmum, í Suðvesturkjördæmi þar sem flokkurinn nýtur nú 15,9% stuðnings og í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem hann mælist með 19,3%.
Vert er þó að hafa í huga að í einstökum kjördæmum eru ekki mörg svör að baki niðurstöðunum og vikmörkin há. Það er því umhugsunarvert að í Reykjavíkurkjördæmi suður fær Viðreisn aðeins 11,6%, en til þessa hefur verið lítill munur á fylgi flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.
Framsókn sækir einnig í sig veðrið milli vikna, einkum í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi, en gefur eftir í Norðvesturkjördæmi. Þá bætir Framsókn einnig við sig í Reykjavík og báðir ráðherrarnir virðast úr allri fallhættu í bili.
Sjálfstæðisflokkurinn virðist raunar vera að reisa sig í Norðausturkjördæmi, en tapar hins vegar í Suðurkjördæmi og er nú með minna fylgi þar en fyrir norðan ef marka má niðurbrot svara á kjördæmi. Mest munar þó um að hann virðist tapa nær þriðjungsfylgi í Reykjavík suður milli vikna.
Úr þessum tölum virðist óhætt að lesa að fylgið leiti inn á miðjuna, líkt og skautun til hægri og vinstri ýti fólki þangað. Það kemur heim og saman við kannanir sem sýna að tveir þriðju svarenda hafa a.m.k. tvo flokka í huga. Hið mikla úrval framboða dregur sennilega ekki úr því.
Auðveldast virðist vera að draga þá ályktun að Viðreisn og Framsókn séu að ná til sín fylgi á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Hliðstæð breyting virðist þó einnig vera á vinstri vængnum, þó hún sé flóknari og ekki eins auðsæ. Þannig tapa Sósíalistar fylgi, sennilegast til Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna. Eins fer vafalaust eitthvert fylgi milli þeirra innbyrðis og sömuleiðis eru þeir líkast að missa eitthvert fylgi inn á miðjuna líka, þó fylgistölurnar breytist á endanum lítið nema hjá Sósíalistum.
Niðurstöðurnar byggjast á svörum 951 manns, en þar af tók 821 afstöðu til framboðanna. Þrátt fyrir að úr þeim megi vel lesa fylgisstrauma á landsvísu eru svörin í einstökum kjördæmum of fá til þess að leggjast megi í útreikning á úthlutun þingsæta af nokkurri vissu.
Því er gripið til þess ráðs hér að ofan að leggja saman tölur úr þremur síðustu könnunum MMR til þess að reikna út þingmannafjölda, en vegna fjölda framboða og úthlutunar jöfnunarsæta má sáralitlu muna til þess að breyta myndinni töluvert. Með samanlögðum tölum má fá tryggari niðurstöðu um það, en á móti kemur að hún endurspeglar síðustu fylgisbreytingar ekki til fullnustu og er rétt að lesandinn hafi þá fyrirvara alla í huga.