Til snarpra orðaskipta kom í dag milli Gunnars Smára Egilssonar, formanns framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins og þáttastjórnenda Dagmála þar sem fortíð Gunnars Smára var rifjuð upp en hann starfaði lengi að verkefnum tengdum blaðaútgáfu sem fjármögnuð var af íslenskum auðkýfingum.
Segist Gunnar í raun aldrei hafa verið kapítalisti, hann hafi aðeins unnið fyrir þá. Sá sem kallist kapítalisti þurfi að eiga kapítal en að hann hafi aðeins verið launamaður.
„Þú varst að vinna með mönnum sem voru með tugmilljarða umsvif. Þú varst að kaupa tugmilljarða stórfyrirtæki erlendis. Þú ferðaðist um á einkaþotu, við Andrés höfum aldrei ferðast á einkaþotu. Það er ekki óeðlilegt að spyrja sig hvað gerist frá því að menn standa í þessu, ferðist um að einkaþotu, kaupi stórfyrirtæki, ráði og reki fólk, er á forstjóralaunum og á forstjórajeppum og séu svo allt í einu farnir að tala fyrir því að brjóta þurfi upp stórfyrirtækin því fólk hafi það ekki nógu gott í samfélaginu.“
„Sko, ég lifi í kapítalísku samfélagi og hef verið að vinna innan þess,“ svarar Gunnar og bætir við: „Ég var blaðamaður sem var mikið til á jaðri blaðamennskunnar. Þá var Morgunblaðið og RÚV miðja fjölmiðlunar. Ég lærði það smátt og smátt að það er ekki hægt að lifa á jaðrinum því þegar það kemur kreppa þá ertu bara þurrkaður út. Það átti við um mörg dagblöð sem ég hafði tekið þátt í og unnið á. Ég vann á NT í gamla daga, það hvarf, ég vann á Helgarpóstinum og hann hvarf og ég vann á Pressunni og hún hvarf, reyndar löngu eftir að ég hætti á henni.“
Segir hann að þegar hann hafi komið að Fréttablaðinu hafi það verið komið í þrot. Hann hafi upplifað það sem svo að blaðið hafi verið sett í þrot og að hverjar dyrnar á fætur öðrum hefðu lokast á Svein R. Eyjólfsson og Eyjólf Sveinsson sem höfðu komið því á laggirnar.
„ég er alinn upp í ægivaldi Sjálfstæðisflokksins og Kolkrabbans. Það var ógnin í samfélaginu. Hvernig getur þú haldið Fréttablaðinu gangandi. Þá mundi ég eftir sögu Morgunblaðsins. Þegar það lenti í vandræðum 1922 eða 1923 þá voru það kaupmennirnir í Reykjavík sem reistu það við. Því ástæðan var sú að kaupmennirnir þurftu miðil til að bera auglýsingar sínar til kúnnana. Þannig að ég fór til kaupmannanna í Reykjavík, annars vegar Árna Haukssonar sem rak Húsasmiðjuna og Jóns Ásgeirs sem rak Hagkaup og Baug,“ segir Gunnar Smári til skýringar.
Er honum þá bent á að mennirnir sem hann nefni til sögunnar séu og hafi verið meira en bara kaupmenn á horninu. Þarna sé um að ræða kapítalista með milljarða fjárfestingar undir. Hafnar Gunnar þeirri lýsingu og bendir á að umsvif Baugs hafi t.d. ekki orðið gríðarleg fyrr en seinna, jafnvel þótt fyrirtækið hafi verið orðið stærsti smásöluaðili landsins á þessum tíma.
„Ástæðan fyrir því að ég fór til þeirra er sú að ég veit að þeir höfðu sameiginlega hagsmuni. Ef Fréttablaðið hefði dáið þá hefði Morgunblaðið skrúfað upp verð á auglýsingum og sett þá í [...] þannig að við höfðum ólíka hagsmuni en sameiginlega hagsmuni af því að halda Fréttablaðinu lifandi.“
Viðtalið í heild sinni má nálgast hér.