Fólk missi ekki ríkisborgararétt

Íslendingar í útlöndum eiga erfitt með að endurnýja vegabréf sín.
Íslendingar í útlöndum eiga erfitt með að endurnýja vegabréf sín. Ljósmynd/Helgi Bjarnason

„Þau helstu mál sem brenna á Íslendingum erlendis eru meðal annars greiðari leið fyrir maka að öðlast íslenskan ríkisborgararétt ef fjölskyldan býr erlendis, erfiðleikar við endurnýjun vegabréfa, vesen með að fá og nota rafræn skilríki og ýmis konar þröskuldar sem torvelda flutninga aftur til Íslands,“ segir Ásgeir Ingvarsson, stofnandi og umsjónaraðili Facebook-hópsins Íslendingar í útlöndum, í samtali við Morgunblaðið.

Hafa gleymst við lagasetningu

Ásgeir hefur staðið fyrir kosningaspjalli á Facebook-hópnum með fulltrúum stjórnmálaflokkanna sem bjóða sig fram til alþingiskosninga. Hópfélagar deildu með frambjóðendum því sem þeim lá þeim á hjarta og spurðu út í stefnuskrár þeirra. „Þetta gekk glimrandi vel. Flokkarnir eru loksins farnir að gefa þessum kjósendahópi gaum,“ segir Ásgeir. Hann bætir við að Íslendingar erlendis hafi lengi gleymst við lagasetningu og ýmis mál þarfnist athugunar.

Ásgeir Ingvarsson.
Ásgeir Ingvarsson. Ljósmynd/Aðsend

Samkvæmt Þjóðskrá búa um 40 þúsund Íslendingar erlendis. „Ísland er flökkuþjóð. Við skerum okkur úr þegar litið er á hlutfall þeirra sem búa erlendis og erum í fimmta sæti yfir lönd sem hafa hæst hlutfall landsmanna búsetta erlendis,“ segir Ásgeir.

Missi ekki ríkisborgararéttinn

Hann nefnir sem dæmi að margir Íslendingar sem eiga erlenda maka myndu vilja að maki þeirra eigi þann möguleika að geta öðlast íslenskan ríkisborgararétt þó að fjölskyldan búi erlendis en í mörgum Evrópuríkjum tíðkast að erlendur maki geti fengið ríkisborgararétt eftir ákveðið langan tíma í hjúskap, óháð lengd búsetu í því landi sem veitir ríkisborgararéttinn.

Annað stórt mál er að einstaklingar sem fæddir eru erlendis og búa þar enn geti haldið íslenska ríkisborgararéttinum en samkvæmt lögum getur einstaklingur sem fæddur er erlendis og hefur aldrei átt lögheimili á Íslandi misst ríkisborgararétt sinn við tuttugu og tveggja ára aldur nema hann sæki sérstaklega um að halda ríkisfanginu.

Þá nefnir Ásgeir einnig að of erfitt sé að endurnýja íslensk vegabréf erlendis og margir þurfi að ferðast langar vegalengdir til að heimsækja íslenskt sendiráð til að endurnýja vegabréfið. Hann segir að skoða mætti að gera ferlið rafrænt eða taka upp samstarf við Norðurlöndin.

Rafræn skilríki eru annað hitamál. Ásgeir segir erfitt fyrir brottflutta að sækja sér rafræn skilríki þar sem krafist er að notandi sé með íslenskt símanúmer. Hann nefnir einnig að gott væri ef Ísland myndi gefa út nafnskírteini í kortastærð og segir Ísland og Danmörku einu Evrópuríkin sem ekki gefi slíkt út.

Að lokum segir Ásgeir háa þröskulda mæta brottfluttum þegar þeir flytja aftur til Íslands. Hann nefnir miklar hindranir varðandi lántöku og vísar einnig til svokallaðrar sex mánaða reglu sjúkratrygginga en samkvæmt henni þarf sjúkratryggður að hafa búið hérlendis í að minnsta kosti sex mánuði áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum.

„Þetta snýst ekki bara um að fjarlægja óþarfa hindranir heldur líka að auðvelda Íslendingum á Íslandi að stökkva á tækifærin erlendis. Við viljum geta sigrað heiminn án þess að þurfa berjast við kerfið og við viljum að leiðin sé greið út og sömuleiðis aftur heim,“ segir Ásgeir.

Koma kjörseðlum á réttan stað

Sjálfstæðisflokkurinn býður Íslendingum búsettum erlendis upp á aðstoð og upplýsingar um kosningu utan kjörfundar. Þá aðstoðar flokkurinn einnig við móttöku atkvæða.

„Við höfum milligöngu á því að koma kjörseðlunum í rétt kjördæmi og ef það eru margir að senda saman kjörseðla sem eiga að fara í mismunandi kjördæmi þá flokkum við þá í sundur og finnum út hvar viðkomandi kjósandi er skráður út frá síðasta lögheimili,“ segir Bryndís Loftsdóttir, verkefnastjóri utankjörfundarskrifstofu Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið.

Íslendingar erlendis vilji kjósa

Þá býður flokkurinn einnig kjósendum sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, en með lögheimili út á landi, að koma með atkvæði sitt upp í Valhöll og þau koma þeim á réttan stað. Bryndís segir um helming atkvæða sem þau fá til sín vera frá fólki innanlands og hinn helminginn frá Íslendingum erlendis.

Bryndís kveðst finna á samtölum sínum við Íslendinga búsetta erlendis, sem dottnir eru af kjörskrá, að þeir séu skúffaðir yfir því að geta ekki kosið. Hún segir að fyrir alþingiskosningar 2009, 2016 og 2017 hafi verið gerðar undantekningar á svokallaðri 1. desember reglu og var þá hægt að sækja um að vera á þjóðskrá þrem vikum fyrir kosningar en ekki hefur verið veitt undantekning í ár.

Bryndís Loftsdóttir.
Bryndís Loftsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þá bendir Bryndís fólki á að það þurfi að fara koma atkvæðum sínum til landsins með einhverjum sem er á leið til hingað til að atkvæðið berist í tæka tíð þar sem póstþjónusta er óáreiðanlegri vegna heimsfaraldursins og tekur lengri tíma fyrir bréf að komast á áfangastað en áður. Bryndís bætir við að hún býðst til að sækja atkvæði sem fólk sendir með öðrum hvert sem er á höfuðborgarsvæðinu og kemur þeim á réttan stað.

„Allt fyrir lýðræðið“

„Við tökum á móti öllum atkvæðum og höfum enga leið til að sjá hvað fólk er að kjósa og það skiptir engu máli. Þetta er bara sjálfsögð þjónusta. Allir eru velkomnir, allt fyrir lýðræðið,“ segir hún að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert