Tryggvi Gunnarsson, fyrrverandi umboðsmaður Alþingis, og íbúi í Rangárþingi ytra, hvatti íbúa til að kjósa með sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi. „Ég held að við stöndum á tímamótum og það sé rétt að stíga þetta skref,“ sagði Tryggvi á íbúafundi í Rangárþingi ytra sem fór fram á Hellu í gær.
Samhliða kosningum til Alþingis um aðra helgi verður kosið um sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Ásahreppur.
Tryggvi, sem hefur búið í Rangárþingi ytra í tvo áratugi, tók til máls undir lok fundarins. „Í þessi tuttugu ár þá hef ég setið þar og haft eftirlit með starfi sveitarfélaga og ríkisins í umboði Alþingis. Nú er ég hættur því. Nú get ég talað.“
Hann sagði að það hefði verið mjög ánægjulegt að fylgjast með umræðunum og margt hefði komið fram sem hefði snert þá strengi sem hann hefði fundið í sínu starfi varðandi veikleika hjá sveitarfélögunum.
Hann sagði mikilvægt að muna að landsmenn byggju við það lýðræðislega skipulag að fá að kjósa fulltrúa sem tækju það verkefni að sér að stýra sveitarfélögum, og að þessir fulltrúar bæru ábyrgð gagnvart íbúum. Tryggvi benti á að margir hefðu haft á orði verkefni byggðasamlaga, sem hefði fyrst og fremst verið hugsuð sem rekstrarutanumhald.
„Það sem hefur gerst á síðustu árum er að það er farið að fela þeim einstök framkvæmdar- og stjórnsýsluverkefni. En það er engin ábyrgð þar á bak við. Og þetta er í raun og veru tímaspursmál hvenær þetta verður einhver skandall,“ sagði Tryggvi sem hvatti íbúa til að gera breytingu á. Hann sagði að það færi betur að slík mál væru í höndum sveitarfélaganna.
Þá benti Tryggvi á, að verkefni sveitarfélaganna hefðu á undanförnum áratugum gjörbreyst. Þetta væri ekki lengur spurning um einhver ákveðin heimaverkefni, fjallskil eða önnur málefni innan sveitarfélaganna.
„Nú er búið að fela sveitarfélögunum að fara með stóran hluta af þeim verkefnum sem áður voru í höndum ríkisins og lúta að margvíslegum félagslegum [verkefnum], menntamálum og öðrum slíkum hlutum. Þarna er verið að taka ákvarðanir um málefni einstaklinga og það skiptir máli að það sé staðið rétt að þeim hlutum og þá þarf að vera fyrir hendi einhver fagleg þekking, og seining sem ræður við það. Og þessi litlu sveitarfélög - ekki bara hér heldur víðsvegar út um land - þau ráða bara ekkert við þetta. Og fyrir utan það að það er þessi nálægð sem skapar ákveðna erfiðleika. Þannig að ég segi við ykkur, að ég held að við stöndum á tímamótum og það sé rétt að stíga þetta skref,“ sagði Tryggvi.
Unnið hefur verið að sameiningunni um nokkurra missera skeið. Ef íbúar samþykkja sameiningu verður til víðfeðmasta sveitarfélag landsins, 15.659 ferkílómetrar eða um 16% af heildarstærð landsins.
Hér má sjá Tryggva taka til máls á fundinum (einnig hægt að horfa á fundinn í heild sinni).