Nýtt kerfi skili 9 milljörðum í stað 5

Mjög lífleg umræða skapaðist í Dagmálum Morgunblaðsins þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ræddi við þáttastjórnendur, Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson um fiskveiðistjórnunarkerfið íslenska og hvert skuli stefnt með það.

„Menn eru að velta fyrir sér með hvaða móti hægt sé að haga veiðum hér. Þú segir ESB geta lært af okkur varðandi sjávarútveginn og hvernig við höfum byggt hann upp. Þið viljið þó, þrátt fyrir það kollvarpa kerfinu sem við búum við.“

„Nei við viljum það ekki.“

„Það er hluti af stefnunni.“

„Nei það er alls ekki hluti af okkar stefnu og við höfum einmitt sagt þvert á aðra flokka sem vilja innkalla allt, banna framsal, banna veðsetningu, við erum ekki þar. Við teljum í grunninn þetta kerfi, það má reyndar ýmislegt laga, t.d. minna kerfið og ná ýmissi hagræðingu, og það þarf að auka gagnsæi varðandi fiskverð. Hið opinbera fiskverð er svona 30-40 prósent undir því sem gengur og gerist á hinum frjálsa markaði. Við hið opinbera fiskverð eru veiðigjöldin miðuð.“

Fjárfestingin er mikilvæg

Segir Þorgerður að kallað sé eftir gagnsæi og aðhaldi varðandi eignarhald í atvinnugreininni.

„Það sem við höfum hins vegar sagt að um leið og við segjum að það sé mikilvægt að það sé hagkvæmni i kerfinu, verðmæti, talandi um Ísafjörð, það eru verðmæti úr afurðum sem þar hafa verið sköpuð. Ótrúlega mikilvæg þýðing fyrir okkur. Byggir á sjálfbærri nýtingu auðlindanna okkar, byggjum á vísindalegri ráðgjöf.“

Bendir hún að sjávarútvegurinn hafi skilað að jafnaði 40 milljörðum í hagnað á síðustu árum.

„Það er gaman að fara í vinnslurnar fyrir norðan, hvort sem það er hjá ÚA eða Samherja eða annarsstaðar og sjá að það er verið að fjárfesta í vinnslum og tækjum og tólum [...] en það þarf líka réttlæti og hagkvæmni og það hefur verið skilið eftir frá því að auðlindanefndin skilaði árið 2000 og þar var einróma að það eigi að tímabinda samningana við útgerðina eða gera þá þannig að þeir séu ekki afhentir til varanlegrar eignar.“

Hefur Viðreisn boðað að 3-5% af aflaheimildum séu innkallaðar og boðnar upp í kjölfarið. Það sé besta leiðin til þess að fá rétt verð á auðlindina. Í núverandi kerfi sé hið opinbera viðmið að útgerðin greiði 33% af hagnaði sínum í auðlindagjald en reyndin sé þó önnur.

Andrés Magnússon, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Stefán Einar Stefánsson rýna …
Andrés Magnússon, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Stefán Einar Stefánsson rýna í nýjustu könnun MMR. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Afkoman, það eru tekin 33%, það er í raun bara verið að taka 10-12%. Meðal annars vegna þess að fiskverðið er bjagað [...] Við segjum það er hægt að taka áfram 33%, það er hægt að gera það en þá bara með réttu viðmiðin,“ segir Þorgerður.

Er þá ekki einfaldara að rétta af fiskverðið í stað þess að innkalla fiskveiðiheimildirnar?

„Af fenginni reynslu, með fullri virðingu m.a. fyrir eigendum Morgunblaðsins og öðrum segi ég að það er betra að markaðurinn  ráði þessu heldur en að það séu stjórnmálaflokkar sem eru að víla og díla með þetta. Ég treysti einfaldlega markaðnum til að leysa þetta.“

„Aflaheimildir ganga kaupum og sölum á markaði nú þegar.“

„Af hverju mega þær ekki gera það líka í hinu nýja kerfi?“

„Þær gera það í hinu nýja kerfi með því að heimildirnar sem fyrirtækin hafa keypt eru teknar af þeim.“

„Nei, nei, bara alls ekki.“

„Þið ætlið að fyrna þær yfir tíma.“

„Er eitthvað verra, má ekki kaupa þá 3-5% af ríkinu. Er það verra að það gangi kaupum og sölum....“

„Það er allt í lagi ef ríkið er með það í sinni eigu.“

Einnig var slegið á létta strengi í stúdíói Dagmála en …
Einnig var slegið á létta strengi í stúdíói Dagmála en umræðan var sannarlega kröftug og lífleg. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Mun skila meiri tekjum í ríkissjóð

Þorgerður segir að aðferðafræðin sem Viðreisn boðar muni skila meiri tekjum í ríkissjóð en núverandi kerfi. Er hún þá minnt á orð Daða Más Kristóferssonar, varaformanns Viðreisnar sem hann lét falla á vettvangi Dagmála þann 15. júlí síðastliðinn. Sagði hann kerfisbreytingarnar ekki myndu skila auknum tekjum.

„Þið sneruð algjörlega út úr því,“ sagði Þorgerður og brást við.

„Það er algjörlega rangt. Hann mætti hér í þáttinn ásamt Ragnari Árnasyni og ég þráspurði hann út í þetta mál og hvort þau veiðigjöld eða sú aðferðafærði sem þið leggið til myndi skila meiri peningum í ríkissjóð. Þrívegis, eins og frelsarinn forðum, hafnaði hann því, áður en haninn galaði hér fyrir utan stúdíóið.“

„Strákar. Mér finnst þetta fallegt hvernig guðfræðingurinn nálgast þetta. En það er alveg ljóst að miðað við þá leið sem við erum að tala um þá er líklegt að markaðurinn fari... nú er þetta innan við fimm milljarðar. Útgerðin er að borga minna en tóbaksgjaldið er...“

„Það er vegna þess að það fer eftir afkomunni. Afkoman er verri...“

„Stefán Einar, af hverju á að verðlauna skussana?“

„Við erum ekki að tala fyrir því. Við erum bara með einfalda spurningu hér....“

„Ég veit ekki alveg hvort ég er að tala við SFS eða blaðamenn Morgunblaðsins hérna. Það er kannski eitt og hið sama.“

„Ég hef aldrei starfað fyrir SFS.“

„Ég er að reyna að svara hérna. ÉG er að reyna að svara hérna.“

Varaformaðurinn á öðru máli

„Daði Már sagði alveg skýrt, þetta er til á upptökum hér sem bara öll þjóðin getur nálgast að það væri ekki líklegt að þetta myndi skila meiri peningum í ríkissjóð...“

„ef viðmiðið er það sama, þ.e. 10-12%.“

„Þá getur þú bara breytt viðmiðinu án þess að setja allt kerfið í uppnám.“

„Við erum á því og m.a. Daði Már að ef við förum að bjóða upp nákvæmlega þetta og við erum að fá um 4,8-5 milljarða í dag þá verði það 9 milljarðar sem verði hægt að fá með uppboði miðað við hvernig fiskverð er í dag og hvernig gengið er á markaði.“

„Þetta er forvitnilegt, þannig að ef ég skil þig rétt. Þannig að ef við værum með kerfið sem þið boðið núna í ár þá væru veiðigjöldin að skila u.þ.b. 9 milljörðum.“

„Já mér finnst það ekkert ólíklegt, að það færi úr... Við erum ekki að koma hérna eins og aðrir flokkar sem segja að við ætlum að fá hérna 20-30 milljarða og sjá ekki hagsmunina í því að hafa hérna öflugan sjávarútveg. Sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnugrein í íslensku samfélagi. Við viljum ekki kippa stoðunum undan honum. Við viljum að það sé hagkvæmni og skilvirkni, við vilju mað það sé áfram þróun og rannsóknir en við viljum líka réttlæti. Og það sem menn verða að fara að kveikja á og ég er sem betur fer farin að skynja hjá vinum mínum í útgerðinni að þeir eru að átta sig á því að ef við förum ekki og hlustum á það sem fólkið er að segja, 78% landsmanna sem hafa verið spurðir segja við viljum öðruvísi verðlagningu á auðlindinni okkar. Þá segjum við, við skulum reyna að nálgast þetta lausnamiðað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert