Greinilega sveiflu til vinstri má sjá í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar, sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is. Hennar gætir hjá bæði Vinstri grænum, Samfylkingu, Pírötum og Sósíalistum, í mismiklum mæli þó.
Samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar, sem gerð var 15. til 17. september, fengju Vinstri græn 12,1% fylgi, Samfylkingin 13,0%, Píratar 11,8% og Sósíalistaflokkurinn 8,6%. Það er í fyrsta sinn á undanförnum mánuðum, sem fylgi Vinstri grænna hreyfist að ráði, Samfylkingin er komin yfir kjörfylgi sitt og Sósíalistar með sína næsthæstu mælingu frá upphafi.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar hins vegar töluvert og mælist 20,3%, sem er með lægsta móti hjá flokknum í mælingum MMR. Þá gengur að miklu leyti til baka hækkun miðjuflokkanna Framsóknar og Viðreisnar, sem vart var í síðustu viku. Miðflokkurinn er hins vegar kominn í bullandi fallbaráttu með 4,5% fylgi.
Miðað við samanlögð svör í könnunum MMR undanfarnar þrjár vikur myndi Sjálfstæðisflokkurinn missa mann frá síðustu kosningum og Framsókn bæta við sig einum, Miðflokkurinn missa fjóra en Viðreisn vinna þrjá, Samfylkingin vinna mann en Vinstri græn tapa fjórum (tveir gengu úr þingflokknum á kjörtímabilinu), Píratar standa í stað og Flokkur fólksins tapa manni (tveir voru gengnir úr þingflokknum fyrir).
Miðað við þessar niðurstöður væri ríkisstjórnin fallin, þar sem ríkisstjórnarflokkarnir næðu samtals aðeins 31 þingmanni. Hins vegar nýtur ríkisstjórnin eins og oft áður stuðnings meirihluta svarenda.
Verði niðurstöður kosninga í samræmi við þessar tölur væri því ekki hægt að mynda neina þriggja flokka stjórn, en hins vegar mætti mynda ýmsar fjögurra flokka stjórnir, enga þó án Sjálfstæðisflokks og aðeins tvær án Framsóknarflokks.
Þrátt fyrir vinstrisveifluna væri aðeins unnt að mynda ríkisstjórn 5 flokka eða fleiri til vinstri, en þær þyrftu allar að reiða sig á Framsókn.
Í könnuninni var spurt um öll framkomin framboð, en Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn fékk 0,47% og Ábyrg framtíð 0,27%.
1.257 svöruðu í könnun MMR, en þar af tóku 1.102 afstöðu til stjórnmálaflokkanna.
Miðað við þessar niðurstöður héldu bæði Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason velli í Reykjavík og Inga Sæland væri kjördæmakjörin í Reykjavík suður, en sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson kæmi inn í jöfnunarsæti í Reykjavík norður.
Hins vegar myndu Reykjavíkurþingmennirnir Brynjar Níelsson og Birgir Ármannsson, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, báðir falla af þingi.
Viðreisn næði þremur mönnum í Suðvesturkjördæmi, en auk flokksformannsins Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur kæmu Sigmar Guðmundsson og Elín Anna Gísladóttir ný inn.
Ásmundur Friðriksson, sjálfstæðismaður í Suðurkjördæmi, myndi einnig detta af þingi verði úrslitin líkt og kannanirnar benda til, en hins vegar myndu sjálfstæðismenn vinna mann í Norðvesturkjördæmi, svo þar kæmi Teitur Björn Einarsson inn.
Stefán Vagn Stefánsson kæmi nýr inn fyrir Framsókn og þar myndi Miðflokksmaðurinn Bergþór Ólason jafnframt halda velli sem jöfnunarmaður og Helga Thorberg koma ný inn fyrir sósíalista.
Í Norðausturkjördæmi ynni Framsókn góðan sigur og Ingibjörg Ólöf Isaksen kæmist þar inn við þriðja mann; Logi Einarsson einn inn fyrir Samfylkingu, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem jöfnunarmaður fyrir Miðflokk og sósíalistinn Haraldur Ingi Haraldsson nýr inn.
Við útreikning á þingsætunum 63 dugir ekki að deila þeim miðað við hráar fylgistölur yfir landið allt, heldur þarf að horfa til fylgis og sæta í hverju kjördæmanna sex.
Í hefðbundinni könnun eru svör í einstökum kjördæmum hins vegar færri en svo að óhætt sé að byggja á þeim af nokkurri nákvæmni og vikmörk sumra flokka í fámennari kjördæmum mjög há.
Því er hér brugðið á það ráð nota samanlögð svör úr þremur síðustu könnunum til að fá viðunandi fjölda svara að baki fylgistölum í kjördæmunum. Fyrir vikið endurspegla tölurnar að ofan ekki nema að hluta fylgisbreytinguna, sem varð í könnun þessarar viku frá hinni síðustu.
Því eru fylgistölur flokkanna í þessum útreikningum um fjölda þingsæta ekki heldur hinar sömu og þær sem raktar eru efst í þessari frétt um fylgi skv. nýjustu könnuninni sérstaklega. Vegna fjölda flokka og atkvæðadreifingar þarf hins vegar að hafa allan fyrirvara á útreikningum sem þessum, þar getur minnsta fylgisbreyting haft víðtæk áhrif.