Bjarni ver fullyrðingu í útvarpsauglýsingu

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir að útvarpsauglýsing, sem hann les sjálfur, þar sem fullyrt er að vextir á Íslandi hafi lækkað „hressilega“ vegna þess stöðugleika sem ríkisstjórnin hafi tryggt, vísi í raun til vaxtastigsins sem var í landinu áður en kórónuveiran setti allt úr skorðum.

Bjarni er gestur í Dagmálum oí dag þar sem talið berst m.a. að stöðu hagkerfisins og lágu vaxtastigi.

Samtalið fer hér á eftir en má einnig sjá í spilaranum hér að ofan.

Spurður út í auglýsinguna

Þið eruð að keyra núna útvarpsauglýsingu þar sem þú talar til kjósenda og segir að vegna þess stöðugleika sem ríkisstjórnin hefur tryggt þá hafi verið hægt að lækka hér vexti allhressilega. Þetta er ekki rétt. Vextir hafa lækkað hér alhressilega vegna þess að hér hefur geisað faraldur og Seðlabankinn tekur sjálfstæða ákvörðun um að lækka vexti því hagkerfið er í ógöngum. Ertu ekki að slá ryki í augu kjósenda með því að halda því fram að vextir hafi lækkað og fólk hafi getað endurfjármagnað lánin sín?

„Ég held að þetta sé ekki alveg svona einfalt. Ef við skoðum hvað hefur gerst síðastliðin ár þá höfum við nýlega sameinað Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann og við höfum innleitt hér nýtt regluverk fyrir fjármálastarfsemi í landinu sem tryggði að fjármálakerfið í heild sinni var gríðarlega vel fjármagnað á toppi hagsveiflunnar og gat tekið höggið niður. Ríkissjóður á sama tíma var rekinn með afgangi. Við greiddum niður mörg hundruð  milljarða af skuldum og komum opinberu fjármálunum inn nýtt lagaumhverfi. Lög um opinber fjármál eru algjör umbylting í allri hugsun í opinberu fjármálunum. Og til hliðar við þetta, semsagt með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins var komið á fót nýjum nefndum og Seðlabankinn hefur verið að byggja upp stöðu til að geta tekist á við krísu.“

En vextir voru ekki lækkaðir vegna þessara kerfisbreytinga..

„Nei, vextir voru þar sem þeir voru því við vorum að vinna að því saman að byggja upp viðnámsþrótt í hagkerfinu.“

En vextir lækkuðu hressilega út af veirufaraldrinum og viðbrögðum Seðlabankans, ekki vegna þess að þið tryggðuð stöðugleika. Það var akkúrat vegna yfirvofandi stöðugleika sem vextirnir voru lækkaðir.

Allt þarf að ganga í takt

„Í hagkerfi þar sem opinberu fjármálin ganga ekki í takt við hagsveifluna þá verða vextir ekki það sem almenningur vill. Það sem Seðlabankinn er að sveifla núna er vaxtasprotinn, ekki satt? Tvisvar sinnum 0,25 og Seðlabankinn er að segja að ef hér á nýju kjörtímabili verður farið í útgjaldaloforð og rekstur opinberra fjármála ganga ekki í takt við hagsveifluna. Ef menn ætla að vera með örvandi ríkisfjármálastefnu á sama tíma og hagvöxtur er kominn á flug og áhrifa kórónuveirunnar er hætt að gæta þá munu vextir bara halda áfram að hækka. Og vextirnir sem voru hér fyrir kórónuveirufaraldurinn voru lágir í öllu sögulegu samhengi.“

Já, í sögulegu samhengi en voru háir í huga flestra í samanburði við þau ríki sem við berum okkur saman við í flestu tilliti. Væri ekki heiðarlegra af ykkur að segja: ef þið viljið ekki að vextir hækki aftur þá kjósið þið stöðugleikann sem við tryggjum. Vegna þess, sem ég ítreka hér aftur að vextir voru ekki lækkaðir vegna stöðugleikans. Er ekki verið að halda of miklu fram hér með þessu, nokkrum dögum fyrir kosningar?

„Þeir sérfræðingar sem hafa tjáð sig um þetta segja að við höfum aldrei séð arma hagstjórnarinnar jafn vel samstillta og átti við í upphafi þessa faraldurs. Ríkisfjármálin, vinnumarkaðinn, stöðu Seðlabankans og fjármálakerfisins. Þessir armar voru svo vel samstilltir að þeir gátu allir komið að hjálp við að leysa úr þessu efnahagsáfalli. Vaxtastigið var að endurspegla þetta fyrir kórónuveirufaraldurinn. Ef við hefðum verið að reka hér botnlausa útgjaldastefnu þá hefðum við verið í mun hærra vaxtastigi og vaxtastigið í dag væri mun hærra en það er ef ríkisfjármálin væru að valda einhverri sérstakri ógn. Opinber fjármál og ríkisfjármál eru forsenda þess að Seðlabankinn geti beitt sér eins og hann gerir. ÞEtta átti ekki við á árunum fyrir fjármálahrunið þar sem við getum bara vitnað í rannsóknarnefnd alþingis um orsakir og aðdraganda hrunsins. Seðlabankinn var að reyna að róa í eina átt meðan opinber fjármál voru að fara annað.“

En það hefur ekkert með kórónuveiruna að gera...

„Það hefur allt með vaxtastigið að gera í landinu.“

Seðlabankinn með tvö vopn

Ertu semsagt að halda því fram að Seðlabankinn hefði ekki gripið til þessara hressilegu vaxtalækkana sem hann ber ábyrgð á ef ríkisfjármálin hefðu verið með öðrum hætti.

„Nei, nei, nei. Ég er ekki að segja það. Að sjálfsögðu beitir Seðlabankinn tvennu. Hann boðaði fyrst magnbundna íhlutun og lækkaði svo vaxtastigið. En vaxtastigið fyrir faraldurinn er það sem ég er að benda á.“

Vísar auglýsingin í það því ég held að enginn hafi lesið þannig í hana?

„Það er lágt vaxtastig í sögulegu samhengi og þeir lágu vextir sem við njótum í dag eru vegna þess að Seðlabankinn hefur trú á efnahagsstefnunni. Ef við værum að sóa opinberum fjármunum í opinberum aðgerðum, safna skuldum í einhverja tóma vitleysu og reka algjörlega ósjálfbæra ríkisfjármálastefnu þá væru vextir ekkert þar sem þeir eru í dag. Þeir væru bara einhversstaðar allt annarsstaðar. Þá væri Seðlabankinn að senda okkur tóninn og senda út viðvörunarmerki og segja: Við höfum verulegar áhyggjur af því hvert stefnir. Hér eru menn að reyna að búa til einhvern nýjan elexír sem skilar aldrei neinum árangri í ríkisfjármálunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert