Ekki erfitt að verja kaupaukagreiðslur Kristrúnar

Logi Einarsson segir engin vandkvæði á því fyrir jafnaðarmannaflokk eins og Samfylkinguna að tefla ítrekað fram frambjóðanda sem nýlega hefur gengið út úr stórum banka með tugi milljóna í vasanum. Þetta kom fram í viðtali við hann á vettvangi Dagmála.

Vísuðu þáttastjórnendur til þess að Kristrún Frostadóttir, sem leiðir flokkinn í Reykjavík suður, lét af starfi sem aðalhagfræðingur Kviku banka fyrr á þessu ári. Hefur komið fram opinberlega, m.a. á vettvangi Viðskiptablaðsins, að hún hafi fengið tugi milljóna í formi kaupaukagreiðslna á grundvelli samninga við bankann.

„Mér finnst þetta sýna skapgerðarstyrk hennar þá að vera harðasti talsmaður þess að hún verði skattlögð í réttmætum mæli, ég hef ekki hugmynd um það. Gegnheilli jafnaðarmann en Kristrúnu Frostadóttur hef ég bara varla hitt.“

Það efumst við ekki um. Við höfum fengið hana hingað í þáttinn og hún er öflugur málsvari. En er þetta ekkert erfitt fyrir ykkur? Verður þetta ekki holur hljómur gagnvart þeim sem höllum fæti standa að segja, hér erum við með kandídatinn sem ætlar að breyta þessum málum. Hann er reyndar nýkominn út úr bankakerfinu með tugi milljóna í vasanum?

„Nei, það er ekki erfitt. Samfylkingin er bara þannig flokkur að við lítum þannig á það að reynsla úr mjög fjölbreyttu umhverfi skipti bara gríðarlega miklu máli.“

Þannig að reynslan af því að hafa fengið gríðarlega kaupauka ...

„Við erum með listamenn, við erum með lögfræðinga, við erum með kennara, við erum með arkitekt, við erum með hagfræðinga, við erum með verkakonu. Við erum með allskonar fólk hjá okkur. Þetta býr til það lið sem við teljum gott til þess að setja saman stefnu sem býr til fjölbreytt og skemmtilegt samfélag.“

Logi, ertu fylgjandi kaupaukakerfum bankanna?

„Ég tel að það þurfi að setja þeim skorður.“

Með hvaða móti?

„Ég bara veit það ekki nákvæmlega. Við þurfum bara að passa að eignaójöfnuður aukist ekki með óheyrilegum hætti.“

Titringur innanbúðar vegna Kristrúnar

Í þættinum er Logi einnig spurður út í þann titring sem þáttastjórnendur hafa heimildir fyrir að skapast hafi innan Samfylkingarinnar vegna þeirrar ofuráherslu sem lögð hefur verið á framkomu Kristrúnar Frostadóttur í fjölmiðlum síðustu vikurnar. Segist Logi ekki kannast við þann titring sem sagður er hafa magnast meðal reynslubolta innan flokksins á borð við Helgu Völu Helgadóttur og Rósu Björk Brynjólfsdóttur.

Kristrún leiðir flokkinn í Reykjavík suður eins og áður sagði og í öðru sæti er Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem sagði skilið við Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Helga Vala leiðir flokkinn í Reykjavík norður.

Gefur Logi lítið fyrir þessa gagnrýni og segir engan titring innan flokksins. Hins vegar sé Kristrúnu meðvitað teflt fram í umræðu um efnahagsmál þar sem hún hafi sannað sig og sé öflugri málafylgjumanneskja en fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Hann bendir auk þess á það í viðtalinu að hann hafi rekist á mynd af Helgu Völu á strætóskýli þar sem hann var á leið sinni upp í Hádegismóa vegna viðtalsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert