Elín Hirst styður Katrínu

Elín Hirst (t.v.) og Katrín Jakobsdóttir (t.h.).
Elín Hirst (t.v.) og Katrín Jakobsdóttir (t.h.). Samsett mynd

Elín Hirst, fjölmiðlakona og fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, er á meðal þeirra sem segjast styðja Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til þess að vera áfram forsætisráðherra, í stuðningsyfirlýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Um er að ræða auglýsingu með um 80 nöfnum fólks sem vill sjá Katrínu áfram sem forsætisráðherra. Á listanum kennir ýmissa grasa og eru þar mörg þekkt nöfn, t.d. Bubbi Morthens tónlistarmaður, Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, Hilmir Snær Guðnason, leikstjóri og leikari, og Gerður Kristný skáld. 

Nafn Elínar Hirstar vekur þó sérstaka athygli þar sem hún sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2013 til ársins 2016. Katrín Jakobsdóttir er formaður Vinstri grænna. Flokkarnir tveir hafa lengi vel haft ólík sjónarmið en þeir hafa þrátt fyrir það setið saman í ríkisstjórn síðastliðin fjögur ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert