Ari Páll Karlsson
Borist hefur beiðni um endurtalningu í Suðurkjördæmi. Þetta staðfestir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis, í samtali við mbl.is en áður hafði verið ákveðið að ekki yrði talið aftur.
„Þetta er beiðni um endurtalningu frá umboðsmanni Vinstri grænna og við munum funda um hana eftir hádegi á morgun,“ segir Þórir.
Hversu langur fundurinn verður segir hann ekki vita. „Það verður bara að koma í ljós á morgun.“
Fyrr í kvöld var greint frá því að eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi verði breyting á tíu þingmönnum sem ýmist mældust inni eða úti eftir að lokatölur birtust í morgun. Endurtalning í Suðurkjördæmi gæti því stokkað kapalinn upp á nýtt.