Bjóst í besta falli við að verða varaþingmaður

„Vonandi get ég verið sú rödd á Alþingi sem talar …
„Vonandi get ég verið sú rödd á Alþingi sem talar máli stúdenta,“ segir Lenya. Ljósmynd/Píratar

Lenya Rún Taha Karim tók þátt í sínum fyrstu Alþingiskosningum í gær, enda einungis 21 árs gömul, og gat þá kosið sjálfa sig, þar sem hún var í framboði fyrir Pírata. Hún komst inn á þing og er yngst til að ná kjöri á Alþingi frá upphafi. Þá er hún einnig fyrsti þingmaðurinn sem tekur sæti Alþingi og á rætur að rekja til Kúrdistan.

„Ég held að þetta sýni vilja þjóðarinnar um að fá einhverja unga rödd inn á Alþingi,“ segir Lenya sem brennur m.a. fyrir málefnum ungs fólks. Hún er 22 dögum yngri en Jóhanna María Sigmundsdóttir var þegar hún tók sæti fyrir Framsóknarflokkinn árið 2013.

Lenya segir að hún hafi ekki gert ráð fyrir því að komast inn á þing, en hún var í þriðja sæti á lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður. 

„Ég var að búast við því að verða í besta falli fyrsti varaþingmaður en var alls ekki að búast við þessum niðurstöðum,“ segir Lenya. Hún setti símann sinn á flugstillingu í nótt, þegar atkvæði voru enn í talningu. Svo vaknaði hún við haug af hamingjuóskum því jú, hún hafði komist inn í jöfnunarsæti.

„Ég er ekki enn búin að meðtaka það sem er búið að gerast,“ segir Lenya. 

Afglæpavæðing neysluskammta forgangsmál

Hver verða þín fyrstu skref á Alþingi? 

„Ég held að það sé að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta. Við erum með tvö fullunnin frumvörp tilbúin og við erum búin að taka umræðuna á Alþingi nokkrum sinnum þannig að það ætti ekki að vera mikið mál að koma þessu í gegn,“ segir Lenya sem horfir einnig til málefna stúdenta, þar nefnir hún lánasjóðinn sem helsta viðfangsefnið.

„Ég vil breyta lánasjóðskerfinu í styrkjakerfi, hækka frítekjumarkið og grunnframfærslu framfærslulána.“

Lenya sat í Stúdentaráði Háskóla Íslands á starfsárinu sem lauk í vor.

„Þegar ég var í Stúdentaráði upplifði ég sterkt að það væri ekki hlustað á okkur enda er erfitt að heyra ákall unga fólksins þegar maður er 45 eða 50 ára. Vonandi get ég verið sú rödd á Alþingi sem talar máli stúdenta.“

Opin fyrir samstarfi við alla, líka aldursforsetann

Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, er elsti þingmaðurinn sem tekur sæti á Alþingi í kjölfar kosninga. Spurð hvort hún geti ýmindað sér að vinna með aldursforsetanum segir Lenya það vel mögulegt. 

„Það þarf klárlega samtal að eiga sér stað. Ég er mjög opin fyrir samstarfi við alla inn á Alþingi, á meðan við náum góðum málum í gegn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert