Mikil gleði og kátína hefur ríkt á kosningavöku Framsóknarflokksins úti á Granda.
Öllum þeim tölum sem borist hafa úr kjördæmum landsins hefur þar verið fagnað vel og innilega, enda stefnir samkvæmt síðustu tölum í að flokkurinn bæti við sig þremur þingsætum.
Tveir ánægðir Framsóknarmenn tóku bóndabeygju upp á gamla mátann þegar þeir höfðu heyrt nýjustu tölur úr einu kjördæminu.
Þingmennirnir Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason hafa einnig skemmt sér vel ásamt stuðningsmönnum flokksins á vökunni.
Þau Lilja og Ásmundur halda þingsætum sínum samkvæmt spálíkani mbl.is, sem miðar við talin atkvæði og fyrirliggjandi skoðanakannanir MMR.