Höfðu rangt fyrir sér sem spáðu mér tortímingu

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er sátt við niðurstöðu þingkosninganna og segir árangurinn betri en kom fram í skoðanakönnunum.

Í þættinum Sprengisandi á Stöð 2 sagði hún töluverð tíðindi að ríkisstjórnin hafi fengið þennan mikla stuðning sem raun ber vitni.

Varðandi Vinstri græna sagði hún flokkinn í raun hafa misst einn þingmann miðað við núverandi stöðu en tveir þingmenn yfirgáfu flokkinn á kjörtímabilinu, eða þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Spurð hvort verra gengi í þessum kosningum miðað við þær síðustu hafi áhrif á stöðu hennar sagði hún að þegar hún hafi farið inn í ríkisstjórnina hafi því verið spáð að flokkurinn hennar myndi hverfa. Sagðist hún því hafa tekið mikla pólitíska áhættu.

„Þegar ég horfi á þessa niðurstöðu held ég að þessir ágætu aðilar sem spáðu mér tortímingu, ég held að þeir hafi ekki haft rétt fyrir sér,” sagði Katrín.

Hún bætti við að þingflokkurinn muni hittast í dag og fara yfir stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert