Í fyrsta skiptið í sögunni verður Alþingi Íslendinga skipað fleiri konum en körlum á því kjörtímabili sem nú er að hefjast. Tæp öld er frá því fyrsta konan settist á Alþingi en eftir kosningarnar í nótt verða þær 33 talsins. Með þessu verður Ísland einnig fyrsta landið í sögu Evrópu sem verður með lýðræðislega kjörið þing þar sem konur verða í meirihluta.
Stórsigur kvenna í Alþingiskosningunum hefur vakið athygli heimspressunnar þar sem ekkert annað land í Evrópu hefur náð jafn mörgum konum inn á þing. Svíþjóð komst þó ansi nálægt því með 47% hlutfalli kvenna í síðustu kosningum þar í landi 2018, að því er greint frá í frétt BBC.
Ólíkt því sem tíðkast í sumum löndum, er engin löggjöf sem kveður á um hlutfall kvenna á þingi, þó sumir flokkar krefjist lágmarksfjölda kvenna í framboði.
Ísland hefur löngum þótt standa framalega þegar kemur að jafnrétti kynjanna og hefur það nú setið í efsta sæti á kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins tólf ár í röð.
Á Íslandi hafa foreldrar barna til að mynda jafnan rétt til fæðingarorlofs, fyrstu lög um launajafnrétti kynjanna ná aftur til ársins 1961 og var Ísland fyrsta land í heimi til að kjósa kvenkyns forseta árið 1980. Allt þetta hefur vakið athygli á heimsvísu.
Ein þeirra kvenna sem var kjörin var á þing í nótt er Píratinn Lenya Rún Taha Karim en hún er aðeins 21 árs gömul og er þar með yngsti þingmaður í sögu landsins.
„Ég vaknaði fyrir ekki svo löngu síðan og í fullri hreinskilni ákvað ég að kveikja á flugstillingunni á símanum mínum því hann hætti ekki að hringja,“ segir hún í samtali við blaðamann BBC. „Skilaboðunum bara rigndi inn. Í einu þeirra var einhver að óska mér til hamingju svo ég gerði ráð fyrir því að hafa náð inn.“
Aðeins fimm önnur lönd í heiminum hafa meirihluta kvenna á þingi en þar er Rúanda leiðandi með 61% kvenna í neðri deild þingsins. Næst á eftir kemur Kúba með 53%, Nikaragúa með 50,6% og svo Mexíkó og Sameinuðu arabísku furstadæmin með 50%. Til samanburðar er hlutfall kvenna í neðri deild breska þingsins aðeins 34,2% og 27,6% í fulltrúadeild bandaríska þingsins.