Talningu atkvæða lauk í Norðvesturkjördæmi laust eftir klukkan sjö í morgun. Framsókn fær þrjá þingmenn í kjördæminu og bætir við sig einum þingmanni frá síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn fær tvo þingmenn og stendur í stað á milli alþingiskosninga. Vinstri græn fá einn þingmann, sem er sama niðurstaða og í síðustu kosningum. Flokkur fólksins fær einn þingmann í kjördæminu en var ekki með þingmann þar eftir síðustu kosningar.
Þá fær Viðreisn einn uppbótarþingmann, miðað við stöðuna núna. Eftir síðustu alþingiskosningar var enginn þingmaður frá Viðreisn í Norðvesturkjördæmi.
Miðflokkurinn tapar mest í kjördæminu en flokkurinn fékk tvo þingmenn inn í síðustu kosningum, þá Bergþór Ólason og Sigurð Pál Jónsson. Samfylkingin tapar einnig þingmanni en Guðjón S. Brjánsson sat á þingi fyrir Samfylkinguna eftir síðustu kosningar.
Stefán Vagn Stefánsson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir koma ný inn fyrir Framsóknarflokkinn og heldur Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður flokksins, sínu sæti.
Þá eru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Haraldur Benediktsson inni fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu en þau sátu bæði á þingi fyrir kosningar og var Þórdís Kolbrún ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
Fyrir Vinstri græn kemur Bjarni Jónsson nýr inn og Eyjólfur Ármannsson er einnig nýr þingmaður Flokks fólksins.
Uppbótarþingmaður kjördæmisins er sem stendur Guðmundur Gunnarsson fyrir Viðreisn en hann sat ekki á þingi fyrir kosningar.
Fréttin hefur verið uppfærð