Alls taka 23 nýir þingmenn sæti á Alþingi eftir þessar kosningar, þó nokkrir hafi reyndar reynslu af þingstörfum. Þar er elstur Tómas A. Tómasson, betur þekktur sem Tommi á Búllunni, sem tekur sæti fyrir Flokk fólksins og Lenya Rún Taha Karim sem tekur sæti fyrir Pírata. Tómas er 72 ára gamall en Lenya er 21 árs.
Framsókn kynnir til leiks flesta nýliða eða sex slíka, þau Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur og Jóhann Friðrik Friðriksson í Suðurkjördæmi, Ágúst Bjarna Garðarsson í Suðvesturkjördæmi, Ingibjörgu Ólöfu Ísaksen í Norðausturkjördæmi, Stefán Vagn Stefánsson í Norðvesturkjördæmi og Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur en Stefán Vagn og Lilja hafa reyndar áður setið á þingi fyrir flokkinn sem varaþingmenn.
Nýliðar Sjálfstæðisflokksins eru Guðrún Hafsteinsdóttir í Suðurkjördæmi, Berglind Ósk Guðmundsdóttir í Norðausturkjördæmi, Hildur Sverrisdóttir í Reykjavíkurkjördæmi suður og Diljá Mist Einarsdóttir í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hildur hefur reynslu af þingstörfum en hún var alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður árið 2017 og hefur hún einnig setið sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Fjórir nýliðar taka sæti á þingi fyrir Flokk fólksins. Þar ber að nefna Eyjólf Ármannsson í Norðvesturkjördæmi, Ásthildi Lóu Þórsdóttur í Suðurkjördæmi, Jakob Frímann Magnússon í Norðausturkjördæmi og fyrrnefndan Tómas í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Nýliðarnir eru þrír hjá Vinstri grænum. Það eru þau Bjarni Jónsson í Norðvesturkjördæmi, Hólmfríður Árnadóttir í Suðurkjördæmi og Jódís Skúladóttir í Norðausturkjördæmi. Fyrir einungis tveimur klukkustundum leit út fyrir að Una Hildardóttir myndi taka sæti á þingi fyrir Vinstri græn, og koma ný inn, en þegar lokatölur voru kynntar um níuleytið varð ljóst að Jódís myndi taka jöfnunarsætið sem áður hafði verið kennt við Unu.
Tvær nýjar þingkonur taka sæti fyrir Pírata, fyrrnefnd Lenya í Reykjavíkurkjördæmi suður og Arndísi Anna K. Gunnarsdóttir í sama kjördæmi. Þær eru báðar jöfnunarþingmenn.
Tvö ný andlit munu birtast á þingi fyrir Viðreisn, það eru þeir Guðmundur Gunnarsson í Norðvesturkjördæmi og Sigmar Guðmundsson í Suðvesturkjördæmi. Þeir eru báðir jöfnunarþingmenn.
Kristrún Mjöll Frostadóttir kemur ný inn fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi suður og Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir sama flokk í Suðvesturkjördæmi. Þórunn hefur áður sinnt þingmennsku en hún alþingismaður frá árinu 1999 og til ársins 2011. Þá var hún umhverfisráðherra á árunum 2007 til 2009. Þórunn var jafnframt formaður þingflokks Samfylkingarinnar frá árinu 2010 til ársins 2011.
Miðflokkurinn er eini flokkurinn sem ekki kynnir ný andlit til leiks enda tapaði flokkurinn fjórum þingsætum. Þingmenn sem halda sínu sæti þar eru því með reynslu af þingstörfum í farteskinu.
Fréttin hefur verið uppfærð