Karl Gauti hyggst kæra endurtalninguna til lögreglu

Karl Gauti Hjaltason sat á Alþingi á síðasta kjörtímabili.
Karl Gauti Hjaltason sat á Alþingi á síðasta kjörtímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karl Gauti Hjaltason, sem var í framboði fyrir Miðflokkinn í Suðvesturkjördæmi, hyggst kæra framkvæmd endurtalningar í Norðvesturkjördæmi til lögreglunnar. Fyrir endurtalninguna leit allt út fyrir að Karl Gauti myndi halda sínu þingsæti sem jöfnunarþingmaður en eftir hana fóru jöfnunarsætin á flakk og Karl Gauti missti sitt sæti.  

„Ég er að láta vinna kæruna. Ég tel að lögregla sé það eina rétta eins og staðan er, að hún upplýsi um atvik,“ segir Karl Gauti í samtali við mbl.is.

RÚV greindi fyrst frá.

Eins og fram hefur komið í fréttum voru kjörgögn í kjördæminu ekki innsigluð að talningu lokinni. Þá hefur oddviti Pírata í kjördæminu gagnrýnt framkvæmdina og sagt vinnubrögðin „óásættanleg“.

Ekki til þess fallið að vekja traust

Karl Gauti vill fá á hreint hvernig að endurtalningunni var staðið. 

„Við getum ekki verið að hlusta á einhverjar yfirlýsingar um það sem gerðist þarna. Það þarf bara að upplýsa á hlutlausan hátt, sérstaklega hvernig umbúnaður atkvæðanna var, hvort þau voru innsigluð, hvort það hafi verið einhver umgangur þarna í kring og hverjir voru þar. Ef það er minnsti möguleiki á því að einhver hafi getað nálgast þessa bunka þá eru atkvæðin því miður ónýt. Þá skiptir engu hve oft atkvæðaseðlarnir eru taldir.“

Karl Gauti telur mikilvægt að kjósendur geti haft fullt traust á kosningum og talningu. 

„Þessar frásagnir sem ég hef heyrt í Norðvesturkjördæmi eru ekki til þess fallnar að vekja traust á framkvæmdinni, sérstaklega þetta um umbúnað atkvæðanna.“ 

„Það verður bara að koma í ljós hvort maður lendi á fótunum“

Líklega verður einnig endurtalning í Suðurkjördæmi og gætu þá jöfnunarþingmenn aftur farið á flakk. Spurður hvernig það sé að vera enn í óvissu um það hvort hann haldi í þingsætið segir Karl Gauti:

„Ég er búinn að taka nokkra hringi í þessu þannig að það verður bara að koma í ljós hvort maður lendi á fótunum í lokin eða ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert