Kristín vonar að hægt verði að eyða óvissunni

Kristín Edwald (fyrir miðju) á fundi landskjörstjórnar fyrr í dag.
Kristín Edwald (fyrir miðju) á fundi landskjörstjórnar fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landskjörstjórn hefur beðið yfirkjörstjórnir allra sex kjördæma að skila skýrslu um framkvæmd talningar í alþingiskosningunum á laugardag. Formaður stjórnarinnar, Kristín Edwald, segir að næsta skref sé að bíða þessara skýrslna, sem og framvindu endurtalningar í Suðurkjördæmi. 

Segja má að algjör óvissa sé uppi um endanlegar niðurstöður kosninganna, sérstaklega vegna endurtalningar í Norðvesturkjördæmi í gær sem hafði þær afleiðingar að jöfnunarþingsæti á landsvísu skoluðust til.

Skýrslunum, sem landskjörstjórn hefur farið fram á að verði gerðar, á að skila fyrir klukkan átta í kvöld. Í þeim á að koma fram skýring á framkvæmd talningar kjördæmanna, meðferð kosningagagna, útlistun á boðunum og samskiptum við umboðsmenn flokka og afrit af fundargerðum. 

„Núna erum við að bíða eftir endurtalningu í Suðurkjördæmi og við erum að bíða eftir þessum skýrslum,“ segir Kristín Edwald við mbl.is að loknum fundi landskjörstjórnar. 

Að því loknu segist Kristín vona að landskjörstjórn geti sinn skyldu sinni, sem er að úthluta þingsætum til þeirra er voru kosnir til að sitja á Alþingi. Til þess að svo megi verða þarf endanleg niðurstaða kosninganna að liggja fyrir, en hún liggur alls ekki endanlega fyrir.

Talning atkvæða.
Talning atkvæða. mbl.is/Árni Sæberg

Óvissa

Í samtölum blaðamanns við hina ýmsu málsmetandi menn í dag, hefur spurningum um stöðu mála fylgt mikið humm og ha? Það dylst engum að óvissa ríkir um framvindu mála og fáir ef nokkur virðist vita hvert framhaldið verður. Í skugga alls þessa sitja nú formenn stjórnarflokkanna og ræða sín á milli um mögulegt áframhaldandi stjórnarsamstarf. 

Eins og fyrr segir vonar Kristín að í skýrslu yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis sannist að ekki hafi með neinu móti verið hægt að eiga við kjörgögnin, hvort sem er á meðan eða skömmu eftir að talningu lauk aðfaranótt sunnudagsins síðasta. 

Ímyndum okkur að svo verði ekki, að í skýrslunni segi bara að kjörgögnin hafi verið í ólæstu herbergi eða eitthvað og hver sem er hefði getað komist í þau, hvað gerist þá?

„Það er náttúrulega búið að kæra þetta til bæði lögreglu og svo kæra sem fer fyrir Alþingi. Ef kosningin í Norðvesturkjördæmi er svo úrskurðuð ógild verður svokölluð uppkosning og kjósa þarf aftur,“ segir Kristín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert