Landskjörstjórn fundar í dag um óvissuna

Landskjörstjórn fundar í dag um stöðuna.
Landskjörstjórn fundar í dag um stöðuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landskjörstjórn ætlar að koma saman til fundar klukkan hálftvö í dag. Þetta segir Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, við mbl.is.

Tilefni fundarins er sú óvissa sem komin er upp vegna endurtalningar í Norðvesturkjördæmi og framkvæmdar talningar þar.

Atkvæði í kjördæminu voru talin aftur í gær og skolaðist skipan jöfnunarþingsæta ansi hressilega til. Gera má ráð fyrir að slíkt geti hent aftur ef talið verður að nýju í t.d. Suðurkjördæmi.

Kristín segir líklegt að landskjörstjórn fari fram á að yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi geri skýrslu um framkvæmd talningar í kjördæminu, til upplýsingar fyrir landskjörstjórn.

Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar.
Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar. Ljósmynd/Jakob Fannar Sigurðsson

Landskjörstjórn fer ekki með vald yfir yfirkjörstjórnum

Kristín segir að landskjörstjórn hafi ekkert með talningu eða framkvæmd hennar að gera, einungis sé slíkt á forræði einstaka yfirkjörstjórna. 

Landskjörstjórn ber þó að úthluta þingsætum og því verður, eins og liggur í hlutarins eðli, að liggja skýrt fyrir um hvernig kosningarnar fóru áður en það er gert. 

Kristín segist ekki vilja tjá sig, á þessu stigi málsins, um hvort talið verði aftur í einstaka kjördæmum, eða hvort kjósa þurfi aftur. Allt slíkt er yfirkjörstjórna í einstaka kjördæmum að meta, ekki landskjörstjórnar. 

Líklega talið aftur í Suðurkjördæmi

Vinstri græn hafa óskað eftir því að talið verði aftur í Suðurkjördæmi, enda munaði aðeins sjö atkvæðum á atkvæðafjölda þeirra og Miðflokksins. 

Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti Pírata, tekur undir þá beiðni og segir sjálfsagt að VG nýti sér þann rétt að óska eftir slíku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka