Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi kemur saman til fundar í hádeginu og tekur fyrir beiðnir fjögurra stjórnmálaflokka þess efnis að endurtalning atkvæða fari fram í kjördæminu.
Þetta staðfestir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, við mbl.is.
Hann segir að meginverkefni fundarins sé að ræða mögulega endurtalningu.
Þórir vildi ekki tjá sig um mögulega endurtalningu fyrr en eftir að yfirkjörstjórn hefur fundað og rætt málið, en líklegt má telja að til hennar komi þegar fjórir flokkar hafa lagt fram ósk sína um að það verði gert.
Búast má við að fundurinn standi yfir til klukkan 14 í dag.
Endurtalning atkvæða í Norðvesturkjördæmi varð til þess að jöfnunarþingsæti á landsvísu skoluðust til og var stutt milli gráts og hláturs hjá þeim frambjóðendum sem ýmist komust inn á þing eða duttu út.
Ljóst er að enn geti skipst á skin og skúrir, sérstaklega ef stefnir í endurtalningu í Suðurkjördæmi, þar sem aðeins var sjö atkvæða munur á því hvort jöfnunarþingsæti félli til Vinstri grænna eða Miðflokksins.