„Eins og við höfum sagt fyrir kosningarnar og eftir þær, þá ætluðum við að setjast niður og kanna grundvöll fyrir áframhaldandi samstarfi þessara þriggja flokka. Og eftir þessar samræður erum við ákveðin í því að halda þeim áfram.“
Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokks, í samtali við blaðamann fyrir utan Stjórnarráðið að loknum fundi með formönnum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks.
Spurður hvort Framsóknarflokkur muni gera kröfu um fleiri ráðherrastóla, í ljósi þess að flokkurinn bætti við sig fimm þingsætum í kosningunum á sama tíma og Sjálfstæðisflokkur stóð í stað og Vinstri græn töpuðu einum, segir Sigurður Ingi:
„Við vildum fyrst og fremst hefja þetta samtal, en það liggur auðvitað í augum uppi að Framsókn vann mikinn kosningasigur og að ríkisstjórnin hélt velli og styrkti sig af þeirri ástæðu.“
Spurður hvort hann sjálfur muni gera kröfu um sérstakt ráðuneyti segir hann það ekki forsendu viðræðanna.
„Fyrst og fremst viljum við nálgast þetta með opnum huga, með reynslu af góðu samstarfi á síðasta kjörtímabili og með þau verkefni í huga sem við teljum mikilvægt að sinna á nýju kjörtímabili.“