Mjótt var á munum þegar kom að því hvaða jöfnunarþingmenn næðu inn á Alþingi. Frambjóðendur duttu ýmist inn eða út. Haldinn verður fundur um mögulega endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi í dag, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Una Hildardóttir, sem skipaði annað sæti á lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi, náði ekki kjöri á Alþingi en um tíma leit út fyrir að hún væri inni sem jöfnunarþingmaður.
„Þetta er alltaf erfitt en ég átti von á því að ég myndi enda sem jöfnunarþingmaður í baráttu við rúlletuna þar, þannig að ég var meðvituð um það að ég gæti verið inni eða úti. Ég fór bara að sofa eftir að ég sá niðurstöðuna frá Suðurkjördæmi, því þá var ljóst að það væri ólíklegt að ég myndi enda inni sem jöfnunarþingmaður,“ segir Una í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.
Niðurstöður kosninganna hafi komið henni aðeins að óvörum. ,,Niðurstöðurnar komu smá á óvart þar sem tvísýnt var hvort ríkisstjórnin héldi velli, en ég hefði viljað sjá okkur standa okkur betur á landsvísu.“
Una bætir við að það komi á óvart að Sósíalistaflokkurinn náði ekki manni inn. Hún hélt að sá flokkur ætti meira inni. „Það var leiðinlegt að sjá margar gamlar baráttusystur og -bræður, sem voru í innra starfi Vinstri grænna, ekki ná inn. Ég hefði viljað sjá þeim ganga vel líka.“
Daði Már Kristófersson, sem skipaði annað sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður og er jafnframt varaformaður flokksins, segir niðurstöðu kosninganna vonbrigði en er ánægður með fylgi flokksins á landsvísu.
„Það voru vonbrigði fyrir mig en á móti kemur að við fáum annað gott fólk inn. Það er augljóslega þannig að þjóðin vildi að ríkisstjórnin héldi áfram,“ segir Daði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.
Daði segir flokkinn spenntan fyrir sveitarstjórnarkosningunum í vor. „Við erum auðvitað mjög ánægð með að vera annar tveggja stjórnarandstöðuflokka sem bættu við sig fylgi. Ég er sérstaklega ánægður með hvað okkur gekk vel úti á landi.“