Allar skýrslur nema tvær komnar í hús

Frá fundi landskjörstjórnar í gær.
Frá fundi landskjörstjórnar í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landskjörstjórn hafa nú borist skýrslur frá öllum kjörstjórnum nema tveimur um framkvæmd talningar atkvæða í alþingiskosningum sem fóru fram um helgina. Kjördæmin tvö sem eiga eftir að skila hafa fengið framlengdan frest til þess en ritari landskjörstjórnar býst við því að skýrslurnar berist í dag.

„Staðan er þannig að ég er búin að fá skýrslur frá Reykavík norður, Reykjavík suður, Suðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi,“ segir Laufey Helga Guðmundsdóttir, ritari landskjörstjórnar, í samtali við mbl.is.

Fyrri frestur fyrir skýrsluskil rann út klukkan átta í gærkvöldi en þá höfðu einungis tvær skýrslur borist.

Vísir greindi fyrst frá því að skýrslur úr öllum kjördæmum nema tveimur væru komnar til landskjörstjórnar en mbl.is greindi frá því í gær að kjörstjórnir í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi fengju frest.

Vilja að skýrslurnar berist sem fyrst en vönduð vinnubrögð í fyrsta sæti

„Norðvesturkjördæmi fékk frest vegna persónulegra ástæðna formanns [kjörstjórnar Norðvesturkjördæmis]. Síðan fékk Suðurkjördæmi að sjálfsögðu frest vegna endurtalningar sem fór fram í gær,“ segir Laufey. 

Spurð hversu langur fresturinn sé segir Laufey að engin sérstök tímamörk hafi verið sett en útlit sé fyrir að þær berist í dag.

„Auðvitað viljum við að skýrslurnar komi sem fyrst. Þó að sjálfsögðu ekki á kostnað vandaðra vinnubragða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert