Innsláttarvilla hafi ráðið úrslitum í norðvestur

Talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi hefur valdið miklu fjaðrafoki.
Talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi hefur valdið miklu fjaðrafoki. mbl.is/Brynjar Gauti

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, segir að myndir af talningarsal á Hótel Borgarnesi, þar sem meðal annars má sjá óinnsigluð kjörgögn, geri talningu og meðferð atkvæða í kjördæmi ekki tortryggilega. 

Tengdadóttir hóteleigandans birti myndirnar á Instagram. Þeim hefur nú verið eytt af svæði hennar.

Hann segir að mannleg mistök hafi orðið til þess að misræmi var í fjölda talinna atkvæða fyrir og eftir endurtalningu þeirra í kjördæminu. Upplýsingar um heildarfjölda talinna atkvæða voru ranglega færðar inn í Excel-skjal, að hans sögn. 

„Þessi mynd segir nú ekki neitt. Það sjást á þessari mynd átta kjörkassar og auð borð á bak við þá. Sú mynd er tekin við inngang inn í salinn þar sem var talið. Það getur hafa verið fullt af fólki inni í salnum þegar þetta var tekið. Það var ekkert í þessum kössum þegar þessi mynd var tekin, þetta eru kassar frá Ísafirði,“ segir Ingi í samtali við mbl.is. 

Segir að innsláttarvilla hafi ráðið úrslitum

Miðað við lokatölur úr Norðvesturkjördæmi, sem kynntar voru snemma sunnudagsmorgun áður en ráðist var í endurtalningu, voru alls 17.666 atkvæði greidd í kjördæminu. 

Þegar endurtalningu lauk voru atkvæðin hins vegar orðin alls 17.668, eða tveimur fleiri. Ingi segir að þetta eigi sér einfalda skýringu: Mannleg mistök. 

„Þetta var innsláttarvilla, sem gerð var eftir upphaflega talningu.“

Eru atkvæðin ekki stemmd af, sem sagt atkvæði greidd vs. atkvæði talin þarna í upphaflegu talningunni?

„Atkvæðin voru stemmd af upp úr öllum kössunum, miðað við skýrslu sem kjörstjórnir senda til okkar yfir atkvæði greidd í öllum kössunum. Og það stemmdi allt saman, en svo er bara innsláttarvilla í Excel-skjalinu sem er notað við lokauppgjörið og það kemur í ljós þegar við förum að skoða þetta um morguninn. Þá hafði sem sagt verið búið að slá inn tveimur of fáum atkvæðum.“ 

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneytið

Segir trúverðugleika kosninganna ekki brostinn

Mikið fár hefur verið um niðurstöðurnar í Norðvesturkjördæmi. Oddviti Pírata í kjördæminu segir að meðferð kjörgagna sé með öllu óásættanleg og hefur kært niðurstöðurnar. Það hefur Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, einnig gert, en hann missti þingsæti sitt eftir að atkvæði voru talin aftur. 

Spurður hvort trúverðugleiki kosningarinnar í Norðvesturkjördæmi og þar með traust til yfirkjörstjórnar sé brostið, segir Ingi að svo sé ekki. 

„Ég hef bara þá skoðun að ég veit ekki hvað ætti að valda því að það ætti að kjósa aftur. Og ég skil ekki heldur þá skoðun að það hefði ekki átt að endurtelja atkvæðin. Það kom í ljós, strax og við fórum að skoða málið eftir ábendingu, að það hafi átt sér stað mannleg mistök og í kjölfarið af því var ákveðið að telja aftur.“

Ingi segir að einhverjir vilji að niðurstaðan frá því áður en endurtalning fór fram eigi að standa, en því er hann ósammála. 

„Ef menn gera mistök, verður þá ekki að leiðrétta þau?“ spyr hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert