Andrés Magnússon
Viðræður um endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf hófust með stjórnarflokkunum í gær, en sagt er að forystumenn þeirra vilji gefa sér út vikuna til þess að komast að því hvort flokkarnir eru á eitt sáttir um meginlínur þess, verkaskiptingu. Takist það muni þeir svo gefa sér þann tíma sem þarf til þess að semja um stjórnarsáttmála, líkt og gert var í upphafi liðins kjörtímabils.
Að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins, sem þekkja vel til, gengu samtöl forystumannanna vel fyrir sig, en þar var farið yfir úrslit kosninganna og þýðingu þeirra.
Stjórnarflokkarnir hafa rúman tíma til þess að ná saman, enda er ríkisstjórnin enn að störfum og það breytist ekkert nema forsætisráðherra biðjist lausnar.
Framsóknarmenn líta svo á að flokknum beri fleiri og veigameiri ráðuneyti en nú í ljósi aukins kjörfylgis og fleiri þingmanna. Þeir nefna sumir að Sigurður Ingi Jóhannsson formaður flokksins eigi að sækjast eftir forsætisráðuneytinu, en hann er sjálfur sagður fallast á að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Það þýði hins vegar að honum beri annað ráðuneyti og er hann sagður renna hýru auga til fjármálaráðuneytisins.
Sjálfstæðismenn, sem eru með helming meirihluta á Alþingi, vilja ógjarnan bera kostnaðinn af þeim hrossakaupum, en sagt er að Bjarni Benediktsson telji í sjálfu sér ekki frágangssök að láta fjármálaráðuneytið af hendi. Það muni hins vegar þýða að fleiri ráðuneyti þurfi að koma í hlut flokksins.