Fundi formanna ríkisstjórnarflokkanna er lokið. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir viðræðurnar hafa gengið vel í dag og er bjartsýnn á áframhaldandi samstarf flokkanna í nýrri ríkisstjórn.
„Við þekkjumst dálítið vel eftir árangursríkt samstarf síðustu fjögurra ára og vitum hvaða hlutir það eru sem við þurfum að ræða sérstaklega,” segir Sigurður Ingi en nefnir að ný viðhorf ríki í samfélaginu og takast þurfi á við ný viðfangsefni.
„Auðvitað erum við að taka með okkur áherslur úr kosningum sem eru mismunandi frá þessum þremur flokkum. Síðan er augljóst að í ljósi kosninganna þurfum við líka að taka tillit til þess hvernig þær enduðu,” bætir hann við.
Spurður hvort hann sækist eftir stóli forsætisráðherra í ljósi góðs árangurs Framsóknarflokksins í kosningunum, segir hann formennina hafa verið í óformlegu samtali um málefnin. Þau þurfi að ræða fyrst áður en rætt sé um skiptingu embætta.
Inntur eftir því hvort ágreiningsatriði formannanna séu mörg segir hann þau auðvitað vera fyrir hendi. Nokkrir hlutir sem ekki voru í stjórnarsáttmálanum þurfi að ræða sem kalli á úrlausn núna.
„Til dæmis erum við búin að gera vel í loftslagsmálum en til að gera enn betur þurfum við að horfa til þess hvernig við getum hraðað orkuskiptum, sem allir eru búnir að leggja áherslu á. Það kallar á meiri orku,” segir hann og nefnir að umhverfi þurfi að vera fyrir slíkt, hvort sem það þýði rammaáætlun eða annað.
„Það eru margir svona þættir sem eru meira aðkallandi núna og er nauðsynlegt að við verðum með skýra sýn á til næstu fjögurra ára en voru kannski fyrir fjórum árum.”