Vefur Landskjörstjórnar, landskjor.is, liggur niðri. Ekki er vitað hvað þessu veldur.
Það sem blasir við þegar reynt er að heimsækja vefinn eru skilaboð um að einhver óprúttinn aðili geti verið að reyna að stela upplýsingum um þá sem heimsækja vefinn.
Hvort sem það er rétt eða ekki kom Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, alveg af fjöllum þegar blaðamaður upplýsti hana um þetta. Hún undirbýr nú fund stjórnarinnar, sem fram fer á morgun, þar sem vinna við útdeilingu kjörbréfa til kjörinna þingmanna fer fram.
„Þú segir mér fréttir,“ segir Kristín við mbl.is um málið. Hún kveðst ætla að reyna að komast til botns í því hvað sé á seyði.
Erfitt er að ímynda sér að vefur landskjörstjórnar sé fjölsóttur, enda er þar alla jafna fátt athyglisvert að finna.
Nú um mundir beinist þó talsverð athygli að störfum landskjörstjórnar þar sem hún hyggst útdeila kjörbréfum til nýkjörinna þingmanna á morgun, þrátt fyrir að óvissa ríki um jöfnunarþingsæti í kjölfar margumræddrar endurtalningar í Norðvesturkjördæmi.
Að útdeilingu kjörbréfa lokinni verður hægt að setja Alþingi, sem mun svo sjálft taka til meðferðar fyrirhugaðar kosningakærur, sem beint verður til þingskipaðrar kjörbréfanefndar.
Þeir sem klóra sér í hausnum yfir þessu ferli geta vel við þá staðreynd unað að þeir séu í algjörum meirihluta hvað það varðar. Fæstir virðast skilja þetta ferli til fulls enda skortir fordæmi fyrir því.
Hvað sem verður, má þó fullyrða að óvissu um niðurstöðu kosningarinnar í Norðvesturkjördæmi mun gæta áfram, a.m.k. þar til áðurnefnd kjörbréfanefnd tekur kærumál vegna kosninganna til meðferðar.