Haldi sama fjölda ráðuneyta að öllu öðru óbreyttu

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að loknum fundi formanna ríkisstjórnarflokkanna þriggja að ekki væri tímabært að ræða ráðherrastóla. Sjálfstæðisflokkurinn myndi þó í öllu falli halda sama fjölda ráðuneyta að öllu öðru óbreyttu.

Finnst ykkur þið vera farin að sjá til lands? Er það góð tilfinning sem þið farið með inn í helgina?

„Ég er alla vega ekki með neinn hnút í maganum en þetta er auðvitað stórmál að horfa til fjögurra ára og draga upp framtíðarsýn fyrir land og þjóð. Það er ekki eitthvað sem maður kastar til hendinni með,“ sagði hann þegar mbl.is náði tali af honum við ráðherrabústaðinn.

Nú fari hann og ræði stöðuna við þingflokkinn. „Þetta er allt að mjakast í rétta átt finnst mér, engin stórkostleg vandamál, við þekkjumst auðvitað vel og allt það en okkur líður þannig að við þurfum að halda aðeins áfram að tala saman.“

Spurður hvort rætt hafi verið eitthvað um uppstokkun eða fjölgun ráðuneyta sagði Bjarni að það hafi „aðeins lauslega“ verið rætt. Þá hafi ekki enn verið rætt um ráðherrastóla.

„Nei, alls ekki neitt. Bara lauslegar þreifingar hvað það varðar. Það er hluti af því sem er eftir og hluti af ástæðunni fyrir því að við þurfum að hittast áfram áður en við komumst á næsta stig.“

Ágætt fyrir málaflokka að gera breytingar

Spurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni gera kröfu um sömu ráðuneyti og síðustu fjögur ár sagði hann:

„Við myndum í öllu falli alltaf horfa þannig á það að við þyrftum að halda sama ráðuneytafjölda að öllu öðru óbreyttu. En það er ekkert skilyrði af okkar hálfu að allir séu áfram í sömu stólum.“

Kannski með því að hleypa yngra fólki inn?

„Ég er ekkert endilega að tala um fólk heldur bara skipulagið í Stjórnarráðinu og hvernig við röðum verkefnum inn í ráðuneyti og hvort það geti ekki bara verið ágætt fyrir málaflokka að gera breytingar reglulega.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki tímabært að ræða ráðherrastóla

Inntur eftir því hvort Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, komi til greina sem nýr ráðherra flokksins í stað Kristjáns Þórs Júlíussonar, segir Bjarni:

„Það er bara ekki komið að því að ræða það.“

Þú ert nú á leið á þingflokksfund að ræða við þitt fólk, hvað gerist svo um helgina?

„Ég ætla að halda upp á afmæli dóttur minnar og aðeins reyna að slaka á. Við erum búin að vera í rosalega löngum spretti. Ég held við þurfum öll aðeins að standa upp, teygja úr okkur og draga að okkur fersku haustloftinu og koma svo fersk aftur að þessu á mánudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert