Kosningakæran komin í hendur þingsins

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, hefur afhent Alþingi og dómsmálaráðuneytinu kosningakæru þar sem þess er krafist að Alþingi úrskurði ógilda kosningu allra framboðslista stjórnmálasamtaka í Norðvesturkjördæmi við þingkosningarnar, sem fram fór um um liðna helgi. 

Í kærunni kemur enn fremur fram, að Alþingi fresti úrskurði um kjörbréf allra þingmanna og varaþingmanna í kjördæminu. 

Magnús Davíð Norðdahl.
Magnús Davíð Norðdahl. Ljósmynd/Aðsend

Magnús segir í kærunni, að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafi brotið gegn mikilvægum ákvæðum XV. kafla kosningalaga við meðferð kjörgagna og talningu atkvæða í kjördæminu. Ágallar séu verulegir og með engu móti hægt að útiloka að þeir gætu hafa haft áhrif á úrslit kosninga til Alþingis 25. september sl. Því beri að ógilda kosningu í NV-kjördæmi og fyrirskipa uppkosningu. 

Fram kemur í tilkynningu, að Magnús trúi því og treysti að þingmenn skoði þessa kosningakæru af fullri sanngirni og alvöru.

Málið er komið í hendur Alþingis.
Málið er komið í hendur Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilindi kerfisins undir

„Uppspretta valdsins í okkar samfélagi er í þingkosningum. Löggjafarvaldið velur síðan hverjir fara með framkvæmdarvald sem síðan skipar þá sem fara með dómsvald. Heilindi kerfisins í heild eru undir í þessu máli.

Allar málsástæður kærunnar, hver um sig og eins allar saman, fela í sér ógildingarannmarka sem eru til þess fallnir að draga úr trúverðugleika talningarinnar, sama hvort litið er til fyrri eða síðari talningarinnar, starfa yfirkjörstjórnar í heild og þar með trúverðugleika kosninganna sem fram fóru í kjördæminu.

Eina leiðin til að leysa þann vanda sem við blasir er að skipa nýja og hæfa yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi og endurtaka kosningarnar þannig að hafið sé yfir allan vafa að farið sé eftir lögum og reglum. Það er sanngjörn og réttmæt krafa okkar frambjóðenda og ekki síst kjósenda í kjördæminu,“ segir Magnús. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert