Formenn ríkisstjórnarflokkanna ræða enn endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf, en þar er fyrsta fyrirstaðan hvernig styrkleikahlutföll í ríkisstjórninni eigi að vera.
Gengið er út frá því að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra, en framsóknarmenn telja að þeim beri aukin völd við ríkisstjórnarborðið, fleiri ráðherrar og helst fjármálaráðuneytið.
Sjálfstæðismenn hafa hins vegar spurt hvers vegna stærsti flokkurinn ætti að vera afgangsstærð við uppstillingu í Stjórnarráðinu. Fái þeir hvorki forsætis- né fjármálaráðuneytið hljóti mun fleiri ráðuneyti að falla þeim í skaut. Svör samstarfsflokkanna munu vera dræm.
Nokkuð hefur verið rætt um endurskipulagningu á Stjórnarráðinu, tilflutning verkefna og stofnun nýrra ráðuneyta, sem gæti liðkað til fyrir bættum styrkleikahlutföllum.
Nú eru 11 ráðherrar, fimm sjálfstæðismenn, þrír framsóknarmenn og þrír vinstri grænir. Jafnvel þótt ekki sé horft til mismikils valdavægis ráðuneyta heldur aðeins fjöldans miðað við þingstyrk, ætti fjöldi ráðherra hvers flokks að vera óbreyttur.
Væri ráðherrum fjölgað um einn gæti Framsókn fengið fjóra, Sjálfstæðisflokkur fimm og Vinstri græn þrjá, en þá væru sjálfstæðismenn raunar að sýna nokkurt örlæti. Enn frekar fái hinir flokkarnir forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Þá væri nær að fjölga ráðherrum um tvo, svo Framsókn fengi fjóra, Sjálfstæðisflokkur sex, en Vinstri græn þrjá. Þá væri fjöldinn í samræmi við styrkleika, en valdavægið órætt. Og svo er ekki víst að ríkisstjórnin vilji vera 13 til borðs!
Vinstri græn munu tæplega fá fleiri en þrjá ráðherra og mannabreytingar ólíklegar þar á bæ. Bæti Framsóknarflokkurinn við sig ráðherra væri Willum Þór Þórsson sjálfgefinn sem fjórði maðurinn, nema að þá yrði hann þriðji ráðherra flokksins á suðvesturhorninu, sem er ómögulegt fyrir flokk með rætur á landsbyggðinni. Því er Ingibjörg Ólöf Isaksen, oddviti í Norðausturkjördæmi, ákjósanlegust og jöfn kynjahlutföll í kaupbæti.
Hjá Sjálfstæðisflokki veltur mikið á fjölda ráðherraembætta. Einn núverandi ráðherra, Kristján Þór Júlíusson, er hættur á þingi, svo þar losnar stóll, hvað sem öðru líður. Hann kemur örugglega í hlut landsbyggðarþingmanns og þar beinast flestra augu að Guðrúnu Hafsteinsdóttur úr Suðurkjördæmi, en þar telja menn löngu tímabært að fá ráðherra aftur. Dræmur árangur flokksins í Norðausturkjördæmi gerir það enn líklegra.
Talið er líklegast að aðrir ráðherrar sitji áfram, þótt auðvitað sé aldrei neitt víst í pólitík. Sumir þingmenn benda á að flokkurinn hafi tapað talsverðu fylgi í Reykjavík norður meðan hann hafi haldið sínu í Reykjavík suður, en hvort það veiki stöðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er efamál. Ýmsir aðrir þingmenn hafa gefið til kynna að þeir séu reiðubúnir til að gegna ráðherraembætti og hafa sumir reynslu og stöðu til.
Sá á kvölina, sem á völina.