Nú þegar niðurstöður kosninganna liggja fyrir má sjá hvort útstrikanir hafi haft áhrif á lista þingflokka.
Í Reykjavíkurkjördæmi suður var oftast strikað yfir nafn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra eða 100 sinnum, sem jafngildir 1,24% kjósenda flokksins. Hún skipaði fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.
Þar á eftir kemur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, sem skipaði fyrsta sæti á lista Vinstri grænna í kjördæminu. Strikað var yfir nafn hennar 85 sinnum sem jafngildir 1,63% kjósenda flokksins.
46 sinnum var strikað yfir nafn Hildar Sverrisdóttur sem skipaði annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Jafngildir það 0,57% kjósenda flokksins.
44 sinnum var strikað yfir nafn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur en hún var á lista fyrir Samfylkinguna, sem jafngildir 0,93% kjósenda hennar.
Þá var strikað yfir Friðjón R. Friðjónsson 40 sinnum, sem var á lista Sjálfstæðisflokksins, jafngildir 0,49% kjósenda flokksins.
Til þess að fella mann í fyrsta sæti niður um sæti þurfa 25% kjósenda að strika út nafn hans, hlutfallið fyrir annað sætið er 20% og fyrir þriðja sætið er það 14,3%.