Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar, segir að enginn hafi getað séð það fyrir að Kviku banki sé orðinn þrefalt stærri núna en hann var þegar hún keypti hlutabréf í fyrirtækinu.
Þegar hún starfaði þar árið 2018 keypti hún tíu þúsund hluti á þrjár milljónir króna. Öllu starfsfólki stóð til boða að kaupa hlutabréfin og ákvað hún að taka þessa miklu áhættu, enda hafi hún hæglega getað tapað peningunum.
Hún gat innleyst fjárfestinguna á þremur mismunandi dagsetningum fram í tímann, að því er hún greindi frá í Silfrinu á RÚV. Við fyrstu sölu í byrjun árs 2020 fékk hún 8 milljónir króna í hagnað eftir skatta. Eftir að Covid brast á féllu hlutabréf í verði, þar á meðal í Kviku og benti þá flest til þess að tveir þriðjuhluti fjárfestingarinnar væri orðinn verðlaus.
Eftir samruna Kviku banka og TM, ásamt vaxtalækkunum í landinu varð hagnaður Kristrúnar við aðra sölu orðinn 30 milljónir króna eftir skatta.
Þriðji gjalddaginn er eftir og vegna mikillar hækkunar á hlutabréfaverði í Kviku væri hægt að verðmeta það sem hún situr eftir með og hefur ekki innleyst á 45 milljónir króna eftir skatta.
„Ég hef fengið 30 milljónir og það eru miklir peningar en þetta er fjárfesting sem ég lagði í,” sagði Kristrún, sem sagðist vilja hafa allt uppi á borðum áður en hún hefur störf á Alþingi.
Hún bætti því við að hún sé hreinskilin manneskja og „algjörlega hagsmunalaus”.
„Ef þetta mál skapaði einhver neikvæð hughrif finnst mér ótrúlega mikilvægt að árétta að það er ekkert athugavert við þessa fjárfestingu annað en að ég datt í lukkupottinn varðandi fjárfestingarákvörðun,” sagði hún.