Ríkisstjórnarflokkarnir þrír hittast í dag og halda áfram stjórnarmyndunarviðræðum. Helsta mál á dagskrá verður staða ríkisfjármála, að sögn Katrínar Jakobsdóttir, forsætisráðherra, en það var einnig málefni síðasta fundar. „Við ákváðum í upphafi að gefa okkur góðan tíma en reynslan hefur kennt okkur að það borgar sig að vanda til verka í upphafi þegar lagt er af stað.“
Katrín fundaði með sínum þingflokki á föstudag, fór yfir stöðuna og fékk áframhaldandi umboð til að halda samtalinu gangandi. Aðspurð hvort upp hafi komið einhver torveld ágreiningsmál, segir hún að það séu alltaf heilmörg mál sem kalli á umræðu í ferli stjórnarmyndunar en það sé þó almennt góður gangur í samtalinu.