Aðrir stjórnarmyndunarmöguleikar koma vel til greina en endurnýjað stjórnarsamstarf, það sé ekki sama ástand í stjórnmálunum nú og þegar til þess var stofnað. Bæði mætti mynda stjórn til vinstri og hægri, jafnvel minnihlutastjórn.
„Ef þú ætlar að hafa áfram stjórn um ekki neitt í þessu ástandi – við þurfum að fara að borga upp skuldir og eitthvað svona – það getur reynst þessum þremur flokkum erfitt, hvernig þau ætla að gera það,“ segir Stefanía Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar, í þætti Dagmála, þar sem farið var yfir landslagið eftir kosningar eins og það blasir við stjórnarandstöðunni.
Kristján Guy Burgess, kosningastjóri Samfylkingar, tekur undir það. „Þau eru með niðurskurðaráætlun til næstu fjögurra ára. Við eigum eftir að sjá hvernig það gengur hjá þeim, þau reyndu að afneita því í kosningabaráttunni að þau hefðu samþykkt í maí afkomubætandi ráðstafanir upp á 100 milljarða. Það var bara eitthvert plagg, sem þau könnuðust ekkert við og höfðu varla séð. En þau þurfa að horfast í augu við þetta.“
Hann minnir á að það sé verðbólguþrýstingur undir niðri, húsnæðismálin þurfi að leysa og svo framvegis. Færa megi rök fyrir því að þá sé gott að hafa vant fólk í brúnni, en til fjögurra ára sé það fremur óspennandi veruleiki. Við blasi verkefni eins og aukinn eignajöfnuður almennings.
Sigurður Már Jónsson, aðstoðarmaður þingflokks Miðflokksins, nefnir að það kunni hins vegar að auðvelda málin, að í íslenskum stjórnmálunm ríki ekki verulegur ágreiningur um grundvallaratriði. „Það er djúpstæð sátt á Íslandi og Norðurlöndunum um hið markaðsdrifna, kapítalíska kerfi, með fríverslun, frjálri verslun, sem styður mjög sterkt velferðarkerfi. Ég held að í grunninn sé bara alveg ágæt sátt um það.“
Þáttinn allan má horfa á með því að smella hér.