Pólitískar fréttir vanræktar

Bergmálshellar félagsmiðla eru hættulegir lýðræðinu, því þar einangrast sammála fólk en eðlileg, pólitísk rökræða er mikið til horfin. Þetta er meðal þess, sem fram kemur í þætti Dagmála um eftirmál kosninganna af sjónarhóli stjórnarandstöðunnar. Þangað komu þau Sigurður Már Jónsson frá Miðflokki, Stefanía Sigurðardóttir frá Viðreisn og Kristján Guy Burgess frá Samfylkingu, gerðu upp kosningarnar og bollalögðu framtíðina.

Þau segja flokka geta einangrast meðal síns fólks á félagsmiðlum, svo að málflutningur þeirra nái ekki augum og eyrum óákveðinna, en fyrir vikið verði kosningabaráttan ómarkvissari og nái sér ekki á strik.

Það gerir svo illt verra að fréttafjölmiðlar hafa margir fjarlægst frásagnir af hinni pólitísku framvindu, segir Kristján Guy. Hann bendir á að Fréttablaðið hafi mikið dregið sig út úr virkum, pólitískum fréttum, en eins sé Ríkisútvarpið uppteknara af jafnvægislist milli flokka en að segja fréttnæmustu stjórnmálafréttirnar.

Hann segir að Morgunblaðið eitt sé þar undantekning á og nefnir t.d. að forsíðufyrirsögn blaðsins í lokaviku kosningabaráttu hafi haft veruleg áhrif á fylgisþróun á lokasprettinum.

Þáttinn allan má horfa á með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert