Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir ákvörðun Birgis Þórarinssonar, um að yfirgefa flokkinn og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, valda sér vonbrigðum. Ekki komi til greina að fleiri fylgi honum þangað.
„Þetta eru vonbrigði sérstaklega í ljósi tímasetningarinnar en þetta er hans ákvörðun,“ sagði Bergþór í samtali við mbl.is fyrir utan stjórnarfund flokksins í dag.
Bergþór vildi ekki tjá sig um hvort ákvörðun Birgis hefði komið sér á óvart en sagði að það myndi koma sér á óvart ef Erna Bjarnadóttir, sem skipaði annað sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi, gengi til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.
Bætti hann við að sérstakt væri að það hafi tekið Birgi þrjú ár að átta sig á því að hann vildi ekki vera í flokknum vegna Klaustursmálsins.
Bergþór segir hug sinn vera hjá flokksmönnum.
„Það er auðvitað stór hópur stuðningsmanna Miðflokksins sem hafa lagt mikla vinnu á sig í Suðurkjördæmi í aðdraganda þessa kosninga. Hugur manns er fyrst og fremst hjá þeim.“
Birgir náði inn með átta atkvæðum og segir Bergþór kjör Birgis stuðningsmönnum flokksins að þakka.
„Birgir Þórarinsson nær sínu sæti á átta atkvæðum. Flestir þeirra stuðningsmanna, sem að lögðu mest á sig, hafa skilað inn átta atkvæðum eða meira. Þannig að hver og einn getur hugsað að það voru þeirra atkvæði sem skiluðu honum þingsætinu.“
Spurður hvort möguleiki væri á sameiningu Miðflokks og Sjálfstæðisflokks telur Bergþór það ekki vera í myndinni.
„Framtíð þingflokksins er mjög góð. Þetta eru öflugir tveir þingmenn sem setja saman þennan þingflokk og við munu áfram tala fyrir þeim sjónarmiðum og stefnumálum sem að bakland okkar hefur fylkt sér á bakvið. Samstaðan spratt fram hrein og öflug í dag sem viðbrögð við þessum fréttum. Ég er bjartsýnn hvað varðar bakland flokksins.“