Ákvörðun Birgis Þórarinssonar, nýkjörins þingmanns Miðflokksins, að skilja við flokkinn eru svik við kjósendur og fólkið sem vann að kosningunum. Þetta segir Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, formaður innra starfs Miðflokksins.
„Ég á ekki til orð, þetta eru svik við kjósendur, svik við fólkið sem er búið að hlaupa hornanna á milli og standa vaktina fyrir hann,“ segir Hallfríður í samtali við mbl.is.
Hallfríður segir ákvörðun Birgis hafa komið sér á óvart og hafnar ásökunum hans um að lykilfólk flokksins treysti honum ekki. Þá segist hún vona að ekki sé fleira svona fólk í flokknum.
Spurð hvort rétt sé að mikið ósætti ríki innan flokksins þvertekur hún fyrir það og segir mikla samstöðu einkenna flokkinn.
Þá segir Hallfríður Ernu Bjarnadóttur, sem skipaði annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi og er varamaður Birgis, einnig vera að svíkja flokkinn en hún færir sig einnig um set, taki hún sæti á þingi.
„Það eru allir búnir að berjast með kjafti og klóm til að koma þeim inn. Auðvitað eru þetta svik við kjósendur og fólkið sem vann fyrir þau. Það eru ekki þau sem eiga allan þennan heiður skilið eða ættu að sitja þarna inni. Þau eru þarna á röngum forsendum.“
Spurð hver næstu skref flokksins verða segir hún flokkinn horfa björtum augum til komandi sveitarstjórnarkosninga.
„Nú munum við þétta raðirnar. Við erum hvergi bangin og munum byggja okkur upp.“