Trausti Fannar Valsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, segir að þegar Alþingi mun taka ákvörðun í kjölfar rannsóknar á kjörbréfum verða þar hugsanlega atriði „sem eru orð á móti orði“.
„Almenn skynsemi verður að ráða niðurstöðunni,“ sagði Trausti Fannar í samtali við Sprengisand á Bylgjunni, og nefndi sem dæmi að á einhverjum tímapunkti í dómsmálum sé það sönnunarmat dómarans sem ráði.
Hann sagði gríðarlega mikilvægt að þingið minnki sviðið sem þarf að leysa úr með huglægu sönnunarmati. „En á það getur reynt að lokum.“
Spurður hvort best væri að kjósa aftur eða að samþykkja kosningu sem menn séu ekki 100% vissir um að hafi verið rétt, sagði Trausti það velta á væntanlegri greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa.
Hann benti á dóma Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi mat á kosningum. Þar fer það eftir því hversu mikill annmarkinn er og hvað hefur verið leitt í ljós um hann, hvort ráðast skal í endurkosningar. „Hann hefur sagt að menn fari ekki í endurkosningar og ógildi ekki atkvæði nema það sanni að það hafi verið leitt í ljós um galla,“ sagði Trausti en nefndi einnig að dómstólinn hafi talað um mikilvægi þess að geta kosið aftur.