Sjúkraliðafélag Íslands skorar á formenn stjórnarflokkanna sem nú funda vegna myndun nýrrar ríkisstjórnar að taka á málefnum bráðamóttöku Landspítalans við samningaborðið.
Í gær birtu tugir sjúkraliða sem starfa á bráðamóttöku Landspítalans opið ákall til stjórnvalda þar sem ástandinu á bráðamóttökunni var lýst sem hættulegu.
„Þegar öryggi sjúklinga og velferð þeirra er stefnt í hættu skulu stjórnvöld hlusta. Sjúkraliðar, læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk er sammála um að ástandið er óboðlegt,“ segir í tilkynningu frá Sjúkraliðafélagi Íslands.
Þá segir að fyrst og fremst vanti meira fjármagn til bráðamóttökunnar til að tryggja mönnun og flæði innan spítalans.
„Þegar sjúklingar fá ekki þá faglegu þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum er rík ástæða til að bregðast við, annars verður sjúklingum áfram stefnt í hættu á bráðamóttöku Landspítalans því þar ríkir neyðarástand. Nú er nóg komið!.“