Stefán Gunnar Sveinsson
„Við sjáum fyrir okkur að það verði fundað út þessa viku,“ segir Birgir Ármannsson, formaður undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis, um stöðuna í vinnu nefndarinnar. Hann segir að nefndin sé mjög varkár í yfirlýsingum um tímarammann, og að hann geti ekkert fullyrt hver staðan verði við vikulokin.
„Við erum auðvitað að reyna að færa okkur í átt að niðurstöðu, en það er alveg ljóst að það eru þó nokkrar umræður eftir í nefndinni og ekki víst hvaða tíma það tekur.“
Hann segir að nefndin sé komin langt í gagnaöflun og sjái fyrir endann á henni, en að enn sé eftir að ræða hvernig þau gögn sem fram eru komin verði metin, og einnig hvernig þau lagalegu atriði verði metin sem þurfi að hafa í huga þegar gengið sé frá niðurstöðum nefndarinnar. „Það eru því þessi atriði sem kalla á mat nefndarinnar, bæði hvað varðar mat á málavöxtum og síðan mat á lagalegum atriðum.“
Í gær birtist á heimasíðu nefndarinnar drög að málsatvikalýsingu á framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi. Birgir segir að auðvitað séu fleiri atriði undir í starfi nefndarinnar en bara kosningin í því kjördæmi, en að þar sem flest kærumálin sneru að því kjördæmi hefði nefndin talið rétt á þessu stigi að gera opinbera þessasamantekt á málsatvikalýsingu sem nefndin sé að vinna.