„Það er hugur í stjórnarandstöðunni að fara að byrja þetta þing. Meðal ástæðanna sem við erum að koma saman í dag er að okkur brá svolítið eftir fund með sitjandi forseta þings í gær,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is að fundi þingflokksformanna í stjórnarandstöðu loknum.
Hún segir að á fundi þingflokksformanna og sitjandi forseta Alþingis, Willum Þór Þórssyni, hafi komið í ljós að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin að leggja fram fjárlagafrumvarp þegar Alþingi kemur saman, lögum samkvæmt á þriðjudaginn.
„Það er komin niðurstaða í undirbúningskjörbréfanefndinni. En ríkisstjórnin er ekki tilbúin með fjárlög og treystir sér ekki til að leggja fram fjárlög fyrr en eftir þrjár vikur. Þá áttar maður allt í einu á því að þetta skjól, sem þau hafa sagt að hafi verið vegna stöðunnar í Norðvesturkjördæmi, virðist vera vegna þess að þau geti ekki komið sér saman um hvernig þau sjái fyrir sér að reka þetta samfélag,“ segir Helga Vala.
Alþingi mun koma saman á þriðjudaginn og verður niðurstaða undirbúningskjörbréfanefndarinnar þá gert kunngjörð. Kosið verður í hina eiginlegu kjörbréfanefnd sem kemur saman og síðan verða greitt atkvæði um kjörbréfin.
„Svo verður bara allt sett í bið aftur því að ríkisstjórnin er ekki tilbúin með fjárlagafrumvarp sem er með réttu fyrsta þingskjal í hverju þingi samkvæmt stjórnarskrá,“ segir Helga og bætir við „þannig að ég veit ekki hvað þau hafa verið að gera þessar átta vikur sem liðnar hafa verið frá kosningum.“
Hún segir bagalegt að þingið hafi ekki komið saman í fimm vikur. „Það eru mjög stór verkefni sem þarf að ræða og taka ákvörðun um. Alþingi er með eftirlitshlutverk með framkvæmdavaldinu. Við erum að tala um stöðuna í heilbrigðiskerfinu, sem er mjög stórt vandamál, við erum að tala um söluna á Mílu, og það þjóðaröryggi sem þar er undir,“ segir Hegla Vala og bendi á að ef ráðherra ætli að gera fyrirvara eða setji inn einhverskonar ákvæði til að tryggja almannaöryggi þurfi að gera það fyrir 17. desember.