Þingflokksformenn í stjórnarandstöðu funda

Alþingi við Austurvöll.
Alþingi við Austurvöll. mbl.is/Sigurður Bogi

Þingflokksformenn flokka í stjórnarandstöðu funda sem stendur um stöðuna í þinginu. Alþingi hefur ekki komið saman í um fimm mánuði og fram undan er snörp vinna við fjárlagagerð þegar þing kemur saman í næstu viku. 

Helga Vala Helgadóttir, nýr þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði fundinn standa yfir þegar blaðamaður náði tali af henni rétt í þessu. 

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, er á meðal þeirra sem gagnrýnt hafa seinagang við myndun ríkisstjórnar og að þing sé sett. Segir hún mikilvæg málefni sitja á hakanum á meðan unnið er að myndun ríkisstjórnar og „allt óeðlilegt við þetta ástand“.

Ákveðið var í gær að Alþingi komi saman á þriðjudaginn og verði niðurstaða undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa þá gert kunngjörð og gengið til kosninga um lögmæti kjörbréfa. 

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og nefndarmaður í undirbúningsnefndinni, hefur opinberað þá skoðun sína að hún telji réttast að láta lokatölur í talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi standa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert